DeLorean bíll á Ísafirði

Ísfirski DeLorean bíllinn á ylhýrum númerum
Ísfirski DeLorean bíllinn á ylhýrum númerum

Margir gimsteinar í formi gamalla og verðmætra bíla eru til á Íslandi. Einn sá athygliverðasti hlýtur að teljast DeLorean DMC-12-bíll af árgerð 1981, en margir kannast við hann úr myndunum „Back to the Future“. Þar var hann í hlutverki tímahylkis Marty McFly. Aðeins voru framleidd 8.900 eintök af þessum sérstaka bíl og það á árunum 1981-1982 og er talið að 6.500 eintök séu enn til.

Bíllinn er mjög sérstakur í útliti, sannkallaður sportbíll með vængjahurðir og aðeins 114 cm á hæð. Hann er smíðaður úr ryðfríu stáli og trefjaplasti og getur því ekki ryðgað.  Af uppboðsvefnum Ebay að dæma er virði þessa bíls um 30.000 dollarar, eða um 3,8 milljónir króna. Þar eru í dag til uppboðs 8 DeLorean bílar.

Eigandi DeLorean bílsins á Ísafirði heitir Stefán Örn Stefánsson. Stefán er þriðji eigandi bílsins og keypti hann árið 2005 af fyrirtækinu Sindra Stál sem eignaðist bílinn árið 1998. Þá var hann keyptur af bandarískum bílasafnara og ástæðan fyrir því að Sindra Stál keypti bílinn var sú að fyrirtækið hafði söluumboð fyrir það stál sem notað var í DeLorean bílinn.

Bíllinn er enn á upphaflegum dekkjum sem Stefán segir að séu orðin nokkuð stíf fyrir vikið. Bíllinn er aðeins ekinn 8.500 mílur eða um 13.500 kílómetra og hann er ræstur reglulega en ekki mikið keyrður, en stundum samt. Bíllinn er svo lágur að ökumaður nánast liggur í bílnum og útsýni úr honum er nokkuð dræmt, eins og títt er reyndar um sportbíla.

Þegar Stefán gifti sig fyrir nokkrum árum var DeLorean bíllinn að sjálfsögðu notaður sem brúðarbíll og vakti hann vitaskuld mikla lukku, ekki síst vegna þess að fáir veislugesta vissu af bílnum og eignarhaldi hans fyrir daginn stóra. Bíllinn hafði verið geymdur í Reykjavík frá kaupum og að giftingunni sem fram fór á Ísafirði.

DeLorean eins og hann birtist áhorfendum í
DeLorean eins og hann birtist áhorfendum í "Back to the Future"
mbl.is

Bloggað um fréttina