Lögreglan í Fort Pierce stöðvaði Melissu Miller á 160 kílómetra hraða í miðju íbúðahverfi þar sem hámarkshraðinn er 50 km. Sem ástæðu fyrir hraðakstri sínum sagði Melissa að Guð hefði sagt henni að aka á þessum hraða og því hefði hún hlýtt. Auk þess flautaði hún stöðugt og baðaði út höndum út um gluggann á bíl sínum og gaf þá skýringu að Guð hefði einnig beðið hana um það.
Eins og er er það lögreglan í Flórída sem ákvarðar hámarkshraðann á götum ríkisins, ekki Guð, og því var Melissa handtekin og fékk að dúsa í fangelsi vegna mislesturs síns á ákvörðunarvaldinu. Melissa, sem er 41 árs gömul þarf líklega að kynna sér refsilöggjöfina aðeins betur ef hún ætlar ekki að fjölga gistinóttunum í fangelsum í Flórída.