Audi ætlar að spila fram miklu trompi í formi næstu kynslóðar TT-sportbílsins. Hann á ekki að vega meira en tonn, vera smíðaður úr koltrefjum, áli og stáli, vera með öfluga fimm strokka vél, byggjast á MQB-undirvagni Volkswagen-fjölskyldunnar og umfram allt að vera mikið fyrir augað. Á myndinni að dæma mun hann uppfylla það þó óvíst sé hversu nálægt henni endanleg útfærsla bílsins verður.
Í áformum Audi er að smíða ofurlétta en samt fjórhjóladrifna útfærslu TT-bílsins með mjög öflugri 2,5 lítra TFSI-vél og hefur sá bíll fengið vinnuheitið TT evo plus. Ef af tilurð hans verður mun hann sverja sig í ætt við Audi R4 og Audi quattro concept-bílinn og kannski fá það besta úr báðum.