Ísland ekki mesta bílaland Norðurlandanna

Finnar eiga metið í fjölda fólksbíla á mann, en þar …
Finnar eiga metið í fjölda fólksbíla á mann, en þar eru 650 bílar á hverja þúsund íbúa. Ísland kemur þar á eftir með um 640 bíla á hverja þúsund íbúa. mbl.is/Golli

Ísland er ekki mesta bílaland Norðurlandanna eins og talið hefur verið, heldur Finnland því þar eru flestir fólksbílar á hverja þúsund íbúa, eða 650. Þó munar ekki miklu því á Íslandi eru 640 bílar á hvert þúsund íbúa.

Noregur er í þriðja sæti með 543 bíla á þúsund íbúa, Svíþjóð í fjórða með 461 bíl og hlutfallslega fæstir eru bílarnir í Danmörku eða 389 á hvert þúsund landsmanna.

Þetta kemur fram í skýrslu um samanburð á umhverfisstjórnun vega- og gatnagerðar á Norðurlöndunum, sem unnin var af sérfræðingum hjá Vegagerðinni, Reykjavíkurborg og tveimur verkfræðistofum. Þar segir að á óvart hafi komið, að Ísland skyldi ekki vera með hlutfallslega flesta bíla í þessum samanburði þar sem Ísland er fámennast, dreifbýlt og án lestarsamgangna.

Íslendingar losa mestan koltvísýring

Í skýrslunni kemur fram að losun koltvísýrings vegna bílaumferðar er mest á Íslandi miðað við höfðatölu, eða 2,4 tonn CO2-ígildis, 2,3 tonn í Danmörku, 2,1 í Finnlandi en lægst í Svíþjóð og Noregi eða 2,0 tonn CO2-ígildis. Ekki þarf þetta að koma á óvart því Ísland er dreifbýlt auk þess sem Íslendingar hafa lengi verið hrifnir af stórum bílum. Það kom hins vegar skýrsluhöfundum á óvart, að næstmesta losun frá samgöngum á landi á íbúa er í Danmörku þar sem landið er þéttbýlt, fólksbílaeign hlutfallslega minnst og hjólreiðar mjög almennar.

Niðurstöðurnar byggjast á skoðanakönnun sem Íslandsdeild umhverfisnefndar Norræna vegtæknisambandsins (NVF-miljö) framkvæmdi í fyrrahaust, 2011. Könnunin gekk út á það að greina stöðu vegagerða og borga á Norðurlöndunum í umhverfisstjórnunarmálum.

Meginniðurstaðan er sú að staða umhverfisstjórnunar hjá þeim samgöngustofnunum og borgum sem tóku þátt í könnuninni er að mörgu leyti svipuð. Allir eru að vinna að betri umhverfisstjórnun, með mismunandi áherslum þó, t.d. vegna mismunandi loftslags og fleiri þátta.

Umhverfisstjórnun er skipulagt umhverfisstarf sem miðar að því að hafa stjórn á umhverfisáhrifum starfseminnar og vinna markvisst að stöðugum umbótum í umhverfisstarfinu í samræmi við umhverfisstefnu.

Samgöngustofnanir Norðurlandanna eru nokkuð ólíkar. Í Danmörku og Noregi hafa sveitarfélögin umsjón með stærstum hluta vegakerfisins og í Svíþjóð og Finnlandi voru járnbrautir nýlega færðar undir umsjón stofnananna. Þær eru því ekki að öllu leyti sambærilegar þó að mörg verkefni séu þau sömu eða svipuð.

Vegagerðin á Íslandi og finnska vegagerðin hafa umsjón með meirihluta vega í sínu landi eða rúmlega 80%. Sænska vegagerðin hefur umsjón með tæplega 70% vega. Í Noregi eru aðeins 19% vega í umsjón norsku vegagerðarinnar og Vejdirektoratet í Danmörku rekur lestina með aðeins 5% vega sem kemur ekki á óvart því Danmörk er þéttbýlt land og stór hluti vega þar því í bæjum og borgum.

agas@mbl.is

Íslendingar nota bílinn mest.
Íslendingar nota bílinn mest. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina