Minnsta bílasala í 19 ár

Hyundai og BMW voru einu bílamerkin sem seldu fleiri bíla …
Hyundai og BMW voru einu bílamerkin sem seldu fleiri bíla í nóvember í ár en í fyrra og var vöxturinn lítill.

Enn fellur sala bíla í Evrópu og eftir síðustu tölur um sölu í nóvember kemur í ljós að sala á bílum hefur ekki verið minni þar í 19 ár. Heildarsalan í nóvember var 965.918 bílar og minnkaði um 10% frá því í fyrra.

Hyundai og BMW eru eini bílaframleiðendurnir sem státað geta af meiri sölu en í fyrra og óx hún um 7% hjá Hyundai og 0,4% hjá BMW. Sala systurfyrirtækis Hyundai, Kia, féll um 3,6%. Mesta fallið var þó hjá Renault, en salan þar á bæ minnkaði um 27,4%. PSA/Peugeot-Citroën var með 16% minni sölu, GM-fyrirtækin Opel-Vauxhall-Chevrolet þoldi 13% minni sölu, Ford 10,2%, Fiat 12,8%.

Stærsti bílasali Evrópu, Volkswagen, var aðeins með 2,5% minni sölu en í fyrra og Audi 2,3%. Volkswagen er með tæplega 26% markaðshlutdeild í álfunni og er langstærsti bílasalinn. Heildarsala bíla í Evrópu var 11,7 milljónir fyrstu 11 mánuði ársins og hefur ekki verið minni frá því árið 1993. Ekki er búist við betri sölu á næsta ári.

Í fjórum af fimm stærstu bílalöndum Evrópu varð minnkun og hún nam 3,5% á stærsta markaðnum, í Þýskalandi, en 19% í Frakklandi og 20% á Spáni og Ítalíu. Hins vegar var góður vöxtur í Bretlandi sem nam 11% og fyrir vikið er Bretland orðið næststærsti markaður fyrir bíla í álfunni og tók við af Frakklandi í því sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina