Greiða sekt fyrir samráð um gasverð

Sorpa, Metan hf., Orkuveita Reykjavíkur og N1 hafa fallist á að greiða samtals 9 milljónir króna vegna samráðs um verð á metangasi. Félögin hafa jafnframt heitið því að örva samkeppni á þessu sviði.

Samkeppniseftirlitið birti fyrir helgi ákvörðun þar sem greint er frá því að Sorpa, Metan hf., Orkuveita Reykjavíkur og N1 hf. hafi fyrr á þessu ári skuldbundið sig til að breyta starfsháttum sínum við sölu og dreifingu á metangasi og undirgengist reglur sem skapa skilyrði fyrir samkeppni á mörkuðum sem þessu tengjast.

Forsaga málsins er sú að N1 hf. upplýsti Samkeppniseftirlitið um samning N1 hf., Sorpu, Metans hf. og Orkuveitu Reykjavíkur sem m.a. fjallaði um smásöluverð á metangasi á grundvelli samnings félaganna frá árinu 2007. Í samningnum fólst brot á banni við samráði en í samningnum var m.a. kveðið á um endursöluverð metangass og lágmarks smásöluverð þess á útsölustöðum N1, áður Olíufélagsins hf.

Þar sem N1 hf. hafði frumkvæði að því að upplýsa Samkeppniseftirlitið um tilvist samningsins uppfyllti félagið skilyrði um niðurfellingu sektar, en reglur Samkeppniseftirlitsins kveða á um atvik sem leiða til niðurfellingar sekta eða ákvarðana um að lækka sektir í málum er varða ólögmætt samráð fyrirtækja.

Hin félögin fylgdu í kjölfarið og lauk málinu með sátt þeirra við Samkeppniseftirlitið. Féllust þau á að greiða stjórnvaldssektir að samanlagðri fjárhæð 9 milljónir króna og sæta skilyrðum í starfsemi sinni til þess að örva samkeppni, eins og áður sagði.

Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að keppinautum á markaði fyrir heildsölu og smásölu á metangasi sé að fjölga. Þannig hyggst Olíuverzlun Íslands hf. veita N1 hf. samkeppni í smásölu á metangasi á næstu misserum, enda hefur félagið náð samkomulagi við Metanorku ehf. og Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á metangasi. Skiptir þar máli að ekki er lengur starfað eftir samningnum frá 2007 og umrædd félög hafa tekið upp heppilegri starfshætti, segir í frétt Samkeppniseftirlitsins.

Í haust kom fram í frétt mbl.is að verð á metaneldsneyti hefur hækkað úr 88 krónum í byrjun árs 2009 upp í 149 krónur sem það er selt á í dag. Þetta gerir um 70% verðhækkun á tæplega 4 árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina