Hækki álögur á bílaeldsneyti eins og lagt er til í bandorminum, frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, mun bensínlítrinn hækka um 3,77 krónur um næstu áramót, að mati FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, telur að dísilolía muni hækka eitthvað svipað.
FÍB lýsir áhyggjum sínum af aldri íslenska bílaflotans í umsögn um bandorminn. Félagið telur eðlilegt að lækka alla vörugjaldaflokka bíla til þess að tryggja eðlilega endurnýjun bílaflota heimilanna, enda sé meðalaldur bíla hér mun hærri en í samanburðarlöndum í Evrópu.
Tafla frá ACEA, Samtökum evrópskra bílaframleiðenda, sýnir að meðalaldur bíla í Evrópusambandinu var 8,3 ár árið 2010. Þá voru elstu bílarnir í Eistlandi (12 ára), Finnlandi (11,9 ára) og Slóvakíu (11,5 ára). Ísland er á svipuðum slóðum með 11 ára meðalaldur allra bíla, samkvæmt Umferðarstofu.