Franska bílsmiðnum Peugeot hefur hlotnast sá heiður að smábíllinn Peugeot 208 hefur verið valinn bíll ársins 2013 á Spáni.
Þessi viðurkenning bætist við aðra titla og viðurkenningar sem sjö gerðum Peugeot-bíla hefur hlotnast í ár.
Þetta er 41. árið í röð sem bíll ársins er valinn á Spáni, en fyrir kjörinu stendur dagblaðið ABC. Til álita í ár komu 54 ný bílamódel sem kynnt voru til sögunnar á Spáni og komu þar á markað í ár.
Í dómnefndinni voru 36 bílablaðamenn af öllum stærstu fjölmiðlum Spánar.
Peugeot 208 hlaut 137 stig og vann stórsigur því næstur varð spænski bíllinn Seat Toledo með 79 stig og í þriðja sæti Hyundai i30 með 57 stig.
Peugeot-bílar eiga upp á pallborðið hjá Spánverjum því í fyrra vann annað módel titilinn, Peugeot 508. Alls hafa bílar hins franska bílsmiðs átta sinnum unnið titilinn eftirsótta, eða í 20% tilvika.
agas@mbl.is