Qoros GQ3 gegn Focus og Golf

Qoros GQ3 virðist velheppnaður í hönnun.
Qoros GQ3 virðist velheppnaður í hönnun. mbl.is/Qoros

Kínverski bílsmiðurinn Qoros hefur birt myndir af nýjum bíl, Qoros GQ3, sem hann segir stefnt til samkeppni gegn Ford Focus og Volkswagen Golf. Hann verður frumsýndur á bílasýningunni í Genf næsta vor.

Qoros GQ3  er fyrstur í flokki fjölda bílmódela sem fyrirtækið áformar að bjóða á markaði bæði í Kína og Evrópu. Við fyrstu sýn virðist hönnunin velheppnuð og smekkleg. Gæti bíllinn til að mynda vel átt eftir að keppa við Skoda og kóreska bíla um hylli kaupenda.

Það sem hingað til hefur haldið aftur af sölu kínverska bíla er gæðaskortur. Hvort Qoros hafi ráðið bót á þeim vanda segja myndirnar ekkert til um. Til að tæla evrópska kaupendur frá traustum bílmerkjum þarf Qorosbíllinn að vera gæðabíll, aðlaðandi, hagstæður í kaupum og velbúinn aukabúnaði.

Aðalhönnuður Qoros er Gert Hildebrand, fyrrverandi yfirstílisti hjá Mini. GQ3 er sagður rúmgóður og fullur hjálpartækja ýmiss konar á stjórnborði. Þá er hann sagður hafa flogið gegnum evrópsk og kínversk öryggispróf.

Fæðing Qoros GQ3 hefur tekið sinn tíma en fyrirtækið hóf starfsemi árið 2007. Að baki því stendur einn af stærstu bílsmiðum Kína,  Chery Automobile, og ísraelskt fyrirtæki. Hefur Qoros aðsetur í borginni Changshu. Takmarkið er að selja til að byrja með 150.000 bíla á ári en að þeim fjölgi í 450.000 þegar bílsmiðjan hefur náð fullum afköstum.

Qoros GQ3 að innanverðu.
Qoros GQ3 að innanverðu. mbl.is/Qoros
mbl.is

Bloggað um fréttina