Getum sagt bless við bensínið

„Tilkoma þessa bíls mun brúa bilið milli hefðbundinna bensín- og dísilbíla og rafbíla. Það hefur staðið rafbílavæðingunni nokkuð fyrir þrifum hve drægni bílanna er takmörkuð og er oft ekki nema 50 til 60 kílómetrar. Chevrolet Volt er hins vegar búinn bensínrafal þannig að hann getur verið eini bíll heimilis með ökudrægi yfir 500 km.

Ég reynsluók þessum bíl fyrir nokkrum mánuðum suður í Sviss og þá dugði rafhleðslan til 92 km aksturs. Það gerist varla betra,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna

Þarft ekki lengur að velja

Um sl. helgi frumsýndi Bílabúð Benna nýjan Chevrolet Volt. Sérstaða bílsins er sú að í honum er 1,4 lítra bensínvél sem getur virkað sem rafstöð fyrir bílinn og framleitt rafmagn inn á geymana og aukið þannig drægi hans á raforku yfir 500 km.

„Þetta þýðir með öðrum orðum sagt að þú þarf ekki lengur að velja á milli sparneytni og notagildis. Volt býður upp á takmarkalausan akstur og menn geta sagt bless við bensínið þar sem mestöll dagleg notkun okkar getur farið fram á rafmagninu,“ segir Benedikt.

Fær góða umsögn

Chevrolet Volt hefur fengið góða umsögn, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hefur verið ofarlega á ánægjulista kaupenda og var útnefndur bíll ársins 2011 af bæði Automobile Magazine og fagritinu Motor Trend. Hann hefur jafnframt hlotið sæmdarheitið umhverfisbíll ársins hjá tímaritinu Green Car Journal. Og þá var útkoman ekkert minna en bíll ársins 2012 á bílasýninunni í Genf í Sviss, en þar völdu 59 virtir bílablaðamenn frá 23 Evrópuríkjum þennan stássgrip sem bíl ársins.

Nýr Chevrolet Volt kostar rétt tæpar 7,6 millj. kr.

„Rafbílar eru mjög dýrir í framleiðslu og því er þetta verð mjög hagstætt,“ segir Benedikt Eyjólfsson. Hann segir tvær ástæður ráða miklu um að verðið á þessum bíl sé hagstætt. Annars vegar beri bílinn engin vörugjöld, enda svo gott sem mengunarfrír. Þá gildi um græna bíla hagstæðar reglur hvað virðisaukaskatti viðvíkur – sem með öðru á sinn þátt í því að bíllinn býðst á góðu verði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka