Forláta silfurgrár Rolls-Royce eðalvagn sem var í eigu söngvara bresku rokksveitarinnar Queen, Freddie Mercury, verður seldur á uppboði á laugardaginn kemur í Birmingham í Englandi.
Bifreiðin er verðmetin á 9-11 þúsund sterlingspund, kringum tvær milljónir króna. Hún er af undirtegundinni Silver Shadow og af árgerðinni 1974. Keypti Mercury hana 1979 og var hún skráð á einkahlutafélag hans, Goose Productions.
Það var einkabílstjóri Mercury sem sá um akstur bifreiðarinnar því ekki var söngvarinn, sem lést árið 1991, með bílpróf. Síðast var bíll þessi notaður árið 2002 við frumsýningu tónlistarverksins „We will rock you“
Bifreiðin hefur verið í umsjá systur Mercury og er sögð í afar góðu ásigkomulagi, rétt sem ný væri. Og það þótt hin 6,75 lítra Rolls-Royce V8-vél hafi lagt að baki um 100.000 kílómetra.
Bifreiðinni fylgir pakki af bréfþurrkum sem voru í henni við andlát Mercury, en hermt er að fjölskyldan hafi ekki getað fengið sig til að hreyfa við honum.