Lifði hratt og lést ungur

Fræg stilla úr stórmyndinni Giant, þar sem Dean lék Jett …
Fræg stilla úr stórmyndinni Giant, þar sem Dean lék Jett Rink, skapfornan vinnumann sem verður olíubarón á einni nóttu. Mótleikkona hans var sjálf Elizabeth Taylor og ekki er laust við rafstraum í samleik þeirra.

Leikarinn James Dean lifði hratt enda voru hraðskreiðir bílar hans líf og yndi. Undir stýri á einum slíkum mætti hann örlögum sínum á hátindi ferilsins.

James Byron Dean fæddist 8. febrúar 1931 í bænum Marion í Indiana-ríki Bandaríkjanna. Ferill hans á hvíta tjaldinu var með snarpasta móti en á móti kemur að á einungis tveimur árum – 1955 og 1956 – lék hann aðalrulluna í þremur kvikmyndum sem allar teljast til sígildra stórvirkja. Dean varð táknmynd rótlausrar og reiðrar æsku eftirstríðsáranna í Rebel Without a Cause og East of Eden. Þá staðfesti hann sig endanlega sem sannur stórleikari með stórbrotinni frammistöðu í myndinni Giant, þar sem hann fór létt með að skyggja á ekki minni stjörnur en Elizabeth Taylor og Rock Hudson. Velgengnin gerði honum aftur kleift að sinna sínu helsta áhugamáli, en það voru hraðskreiðir bílar og mótorhjól. Þangað fór líka helft þeirra fjármuna sem hann vann sér inn sem leikari.

Náttúrubarn í hraðakstri

Samstundis og Dean komst í álnir fyrir hlutverk sín hóf hann að sinna hugðarefnum sínum af kappi. Um leið og hann hafði hreppt hlutverkið í East of Eden keypti hann sér Triumph Tiger T110 vélhjól ásamt sportbíl af MG Td gerð. Bílnum skipti hann hins vegar út fyrir Porsche Super Speedster og þar með hófst yfirlýst ást hans á Porsche-bílum. Bílinn keypti hann fráleitt til að hafa uppá punt; hann skráði sig þegar í stað til leiks í Palm Springs Road Races kappaksturinn, skömmu áður en tökur hófust á Rebel Without a Cause. Dean rúllaði áhugamannakeppninni upp og varð annar í keppnisflokknum daginn eftir.

Dean sýndi oft ótrúlega takta undir stýri og var haft á orði að yrði hann einhvern tímann þreyttur á Hollywood ætti hann framann vísan á kappakstursbrautinni.

Dean og „Litli skíthæll“

Hinn ógnarhraði lífsstíll stjörnunnar var þó forkólfum Warner Bros. lítt að skapi og þegar kom að því að tökur skyldu hefjast á stórmyndinni Giant harðbönnuðu þeir hinum unga ökuþór að taka þátt í fleiri kappakstursmótum; East Of Eden og Rebel Without A Cause höfðu slegið í gegn og ekki hugnaðist þeim sú tilhugsun að jafn vænleg mjólkurkýr færi sér að voða í frístundunum. Það gekk svo langt sem það náði. Þó ekki mætti hann lengur keppa í hraðakstri gat hann ekið hratt í frítímanum. Með það í huga festi hann kaup á gríðarlega öflugum Porsche 550 Spyder og var almennt talið að með því væri hann í senn að gefa kvikmyndaframleiðendunum langt nef og að hefna sín á þeim fyrir að banna sér að keppa. Til marks um þetta er að einn yfirmanna Warner Bros. hafði einhvern tímann í bræði sinni kallað Dean „Little bastard“ eða Litla skíthæl; Dean skírði nýja Porsche-inn einmitt þessu nafni og lét mála það á skotthlerann.

Ekki verður feigum forðað

Ekki reyndist þó Litli skíthæll nein happafleyta fyrir leikarann unga. Heimildir greina frá válegum fyrirboða sem átti sér stað þegar Dean hitti fyrir sjálfan Alec Guinness fyrir utan veitingastað í Los Angeles, skömmu fyrir andlát þess fyrrnefnda. Ungstirnið bauð Guinness að koma og skoða nýja sportbílinn sinn. Sir Alec þótti bíllinn óhugnanlegur að sjá og varaði Dean við með þessum orðum: „Ef þú sest um borð í þennan bíl muntu finnast dauður í honum áður en vika er liðin.“ Þessi orð, sem voru látin falla 23. september 1955, stóðu heima. Viku síðast, 30. september, lenti Dean í hörðum árekstri þar sem Litli skíthæll gereyðilagðist. Dean stórslasaðist og gaf upp öndina í þann mund sem sjúkraliðar náðu að klippa hann úr flakinu. Hann var 24 ára gamall.

James Dean var fyrsti leikarinn til að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aðalhlutverki að sér látnum, fyrir Giant. Frammistaða hans í framangreindum þremur kvikmyndum ásamt hinu ótímabæra fráfalli gulltryggði honum goðsagnakennda stöðu í sögu kvikmyndanna. Af Litla skíthæl er það aftur að segja að bölvunin sem grandaði Dean virtist hvíla áfram í bílnum; ótal sögur eru til um aðra bíla sem fengu íhluti úr flakinu og lentu í framhaldinu í slysum sem jafnvel kostuðu lífið; þá kviknaði í skúr þar sem flakið var geymt og beið þess að vera sýnt.

Hvað sem til er í þessu er Dean ennþá meðal dulmögnuðustu stjarna kvikmyndanna, tæpum 60 árum eftir sviplegt fráfallið – undir stýri.

Dean smeygir sér í hanska áður en lagt er í …
Dean smeygir sér í hanska áður en lagt er í hann. Hann og bíllinn mættu örlögum sínum saman.
Eins og sjá má var bíllinn í rúst eftir hinn …
Eins og sjá má var bíllinn í rúst eftir hinn örlagaríka árekstur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka