Þakkar kreppu fækkun banaslysa í umferðinni

Bíll við bíl á frönskum vegi.
Bíll við bíl á frönskum vegi. mbl.is/afp

Banaslysum í umferðinni í Frakklandi fækkaði á nýliðnu ári sem þeim fyrri. Biðu 3.700 manns bana á frönskum vegum 2012 sem er 300 færra en árið áður. 

Chantal Perrichon, leiðtogi Bandalags gegn umferðarofbeldi (LCVL), segir fækkun banaslysa líklega fyrst og fremst að þakka áframhaldandi efnahagskreppu, fremur en opinberum aðgerðum á borð við fjölgun hraðamyndavéla. 

„Fólk kaupir færri bíla, minna bensín og ekur hægar,“ segir Perrichon. Yfirvöld áforma, að sögn útvarpsstöðvarinnar RTL, að setja upp 200 hraðamyndavélar til viðbótar í ár meðfram frönskum vegum.

Þá er ætlunin að taka í notkun í ár nýjar færanlegar hraðamyndavélar sem fyrst og fremst verður komið fyrir í ómerktum lögreglubílum. Þær eru það afkastamiklar að geta mælt og sektað sjö brotlega bíla á mínútu.

mbl.is

Bloggað um fréttina