Innyfli kjúklinga og svínafita eru ekki meðal þess sem kemur fyrst upp í hugann þegar rætt er um umhverfisvæna orkugjafa. Bílaframleiðandinn Mazda er hins vegar að þróa ferli til að vinna dísileldsneyti úr afgöngum sem falla til við slátrun dýra.
Reyndar er innyfladísilolía nú þegar notuð til að knýja tæki, til dæmis hjá bandaríska sjóhernum. Það þykir mikill kostur að hægt er að blanda henni beint við venjulega dísilolíu svo ekki þarf sérstakar dælur eða tanka til að koma henni í dreifingu.
En leitin að eldsneyti framtíðarinnar einskorðast ekki við affallið úr sláturhúsinu. Í Bretlandi er til dæmis verið að framleiða eldsneyti úr andrúmsloftinu, með hjálp rafmagns. Enn um sinn er um mjög lítið magn að ræða, en þó hefur Lotus-bifreið verið ekið á slíku eldsneyti til reynslu. Mögulegt er að reisa stóra verksmiðju til slíkrar framleiðslu, en smíði hennar gæti tekið um 15 ár.
Þá geta plöntur og rusl komið að gagni við að knýja bíla- og tækjaflota framtíðarinnar, og í raun allt sem inniheldur kolvetni, eins og myndbandið með þessari frétt AOL sýnir.