Viðurkenningar fyrir skilvirkni bíla og sparneytni eru eftirsóttar í augum bílaframleiðenda. Slíkum útnefningum fylgja stundum önnur „verðlaun“ og óæðri.
Er bandarísk stofnun sem kennir sig við orkuskilvirkni í hagkerfinu (ACEEE) útnefndi á dögunum Toyota Prius C sem vistvænsta bílinn 2013 birti hún jafnframt lista yfir „lúalegustu“ bílana gagnvart umhverfinu.
Mætti kalla þann lista skammarkrók bílsmíðinnar sakir mengunar og tillitsleysi við umhverfið. Þegar um er að ræða vinsæla stóra og kraftmikla bíla er ekki heiglum hent að komast hjá því að lenda á honum.
„Skítugasti“ bíllinn árið 2013 er samkvæmt niðurstöðum ACEEE Ford F-350 FFV palljeppinn. Hlýtur hann aðeins 17 í visteinkunn, en til samanburðar er vistvænsti bíllinn í ár, Prius C, með með umhverfisstuðulinn 58. Í öðru sæti er Ford F-250 og í því þriðja Ford E-350 wagon, en báðir hafa sama stuðul og F-350 FFV jeppinn, eða 17.