Bílaframleiðandinn Volvo kynnti fyrir fimm árum það markmið sitt að útrýma banaslysum í Volvo bílum fyrir árið 2020. Nú virðast Svíarnir ætla að ganga skrefi lengra og búa bíla sína þannig að þeir geti ekki einu sinni lent í árekstri.
Í þeirri viðleitni sinni er nú verið að þróa og fullkomna margar tækninýjungar, á borð við árekstrarvarnarkerfi fyrir borgarumferð sem nemur aðra bíla og gangandi vegfarendur og lætur til sín taka ef stefnir í árekstur.
Önnur tækni sem gæti ratað í bíla fljótlega er sjálfstýring fyrir þjóðvegaakstur og hafa tilraunir með hana gefið góða raun. Það styttist því í að það verði raunhæfur möguleiki að sofna undir stýri án þess að það hafi skelfilegar afleiðingar í för með sér.
Samkvæmt frétt Motorauthority.com deyja um 1,2 milljónir manna í bílslysum á ári hverju í heiminum. Það er til því mikils að vinna og Volvo hefur lengi haft öryggið að leiðarljósi í hönnun sinna bíla.
Skemmst er að minnast uppblásanlegra árekstrarpúða fyrir gangandi vegfarendur, sem Volvo kynnti í V40 bílum sínum nýlega, þeir fyrstu sinnar tegundar.
Í myndbandinu hér að neðan er fjallað nánar um tækninýjungar sem Volvo ætlar sér að nýta til að ná markmiði sínu.