Ford-pallbílarnir hafa breyst mikið

Ford F-150, SVT Raptor, selst vel enda kraftmikill bíll með …
Ford F-150, SVT Raptor, selst vel enda kraftmikill bíll með stórum dekkjum.

Í 36 ár hafa Ford F-línu-pallbílarnir verið þeir mest seldu í bílalandinu Bandaríkjunum. Ekki nóg með það, heldur hafa þeir einnig verið mest seldu ökutækin á sama markaði í 31 ár.

Árið 2009 var byrjað að selja nýjustu kynslóð F-línu-pallbíla en hún er sú tólfta. Og nú er 65. framleiðsluár F-línunnar að hefjast.

Á heimamarkaði Ford í Bandaríkjunum hafa pallbílarnir selst vel eins og áður segir en einnig er töluvert af F-línu-pallbílum hér á landi. Lítið hefur þó verið flutt inn af þeim síðan gengi krónunnar féll og einungis örfáir pallbílar af tólftu kynslóðinni á Íslandi.

Léttara og sterkara stál

Þar sem bensínverðið hefur hækkað í Bandaríkjunum eins og annars staðar þá var eitt meginmarkmiðið með tólftu kynslóð F-línunnar að reyna að draga úr eyðslu miðað við fyrri kynslóðir. Þrátt fyrir það var innanrýmið stækkað og rýmkað. Í undirvagninn var notað léttara og sterkara stál til að draga úr eyðslu, auka öryggi og dráttargetu pallbílsins auk þess að gera hann hæfari í að bera meiri þyngd.

Í upphafi voru vélarnar þær sömu og áður en þær fengu þó aukinn kraft, fyrir utan einu V6-vélina sem hætt var að bjóða upp á og því einungis V8-vélar í boði sem voru 248-320 hestöfl. Það var ekki fyrr en árið 2011 að Ford tók vélalínuna rækilega í gegn og alveg nýjar vélar leystu þær gömlu af hólmi. Fyrst ber að nefna að V6-vél var þá aftur fáanleg, hún var 3,7 lítra og skilaði 302 hestöflum og 278 lb/ft (377 Nm).

Nýja V6-vélin varð því kraftmeiri en sumar gömlu V8-vélarnar en eyðir minna. Það þýðir að nýr F-línu-pallbíll með V6-vél hefur fleiri hestöfl en V8-pallbílarnir frá Ford sem fluttir voru inn til Íslands á árunum fyrir hrun, en V8-vélarnar toga þó meira. Með nýju 3,7 lítra V6-vélinni varð Ford-pallbíllinn næsteyðslugrennsti pallbíllinn í sínum flokki á eftir Chevrolet Silverado Hybrid.

V6 kraftmeiri en V8

Ford einblíndi þó ekki bara á að auka kraft og minnka eyðslu V6-vélarinnar heldur þróaði líka nýjar V8-vélar. Sú minni er 5,0 lítra og skilar 360 hestöflum og 380 lb/ft (520 Nm). Líkt og 3,7 lítra V6-vélin er 5,0 lítra V8-vélin fengin úr nýja Mustanginum. Stærri V8-vélin er 6,2 lítra og skilar 411 hestöflum og 434 lb/ft (588 Nm).

Auk þessara þriggja véla ákvað Ford að bjóða upp á 3,5 lítra Ecoboost V6-vél með tveimur túrbínum. Sú vél er sú fyrsta sinnar tegundar í pallbíl og voru uppi efasemdir um hana í fyrstu. Hún er þó núna orðin vinsælasta vélin í pallbílunum og hefur það líklega eitthvað að gera með það hve kraftmikil og eyðslugrönn hún er. Ecoboost-vélin er 365 hestöfl og 420 lb/ft (570). Hún er því 5 hestöflum kraftmeiri en 5,0 lítra V8-vélin og togar næstum því jafn mikið og 6,2 lítra V8-vélin.

Ekki nóg með það heldur eyðir hún minna en báðar V8-vélarnar. Allar fjórar nýju vélarnar senda kraftinn í gegnum nýja sex gíra sjálfskiptingu.

Raptor til utanvegaaksturs

Sem dæmi um nýjan öryggisbúnað í Ford F-línunni er hliðarloftpúði fyrir framsætin og annar loftpúði sem fer eins og tjald fyrir allar hliðarrúðurnar ef pallbíllinn lendir í hliðarárekstri. Árið 2008 var hætt að framleiða Lincoln Mark LT, sökum þess hve hægt þeir seldust, en Mark LT var lúxusútgáfa af Ford F-línunni. Í staðinn fyrir Mark LT var byrjað að bjóða upp á lúxusútgáfu af Ford F-150, kallaða Platinum. Lincoln Mark LT er þó ennþá fáanlegur í Mexíkó.

Árið 2009 var byrjað að selja alveg nýja útgáfu af Ford F-150 sem var sérstaklega hönnuð fyrir utanvegaakstur. Þessi útgáfa sem heitir SVT Raptor seldist miklu betur en búist var við og er nú einungis fáanleg með kraftmestu vélinni, þ.e. 6,2 lítra V8. Raptorinn er útbúinn Fox-keppnisdempurum sem hafa 28 cm slaglengd að framan og 30 að aftan og hann kemur á 35 tommu dekkjum sem staðalbúnaður. Raptorinn sker sig ekki bara frá hinum Ford F-150 með dekkjastærðinni. Má þar meðal annars nefna að hann hefur annað húdd, bretti og grill auk þess að vera 18 cm breiðari.

jonas@giraffi.net

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina