Á sama tíma og dísilbílar eru að sækja í sig veðrið á Íslandi snúa frændur okkar Norðmenn baki við þeim. Á sama tíma og bílasala eykst í Noregi fækkar þeim hlutfallslega misseri frá misseri sem veðja á dísilbíl.
Alls voru seldir 11.639 bílar í Noregi í nýliðnum janúarmánuði sem er 7,4% aukning miðað við sama mánuð fyrir ári. Eða með öðrum orðum 801 fleiri seldir bílar í ár en í fyrra. Og 2753 fleiri en að meðaltalil í janúar undanfarin 10 ár.
Á sama tíma seldust 37.079 notaðir bílar, eða 3139 fleir en í janúar 2012, að sögn umferðarstofunnar norsku, OFV.
Sé horft til undanhalds dísilbíla voru 70% allra nýskráðra bíla í janúar 2012 með dísilvél. Hlutfallið í nýliðnum janúar var hins vegar fallið niður í 55,3 prósent. Í staðinn hefur sala rafmagns- og tvinnbíla aukist.
Aukningin í rafbílasölu í ár er 31,1% miðað við janúar í fyrra og eru 2,9% norska bílaflotans nú knúin rafmagni. Tvinnbílarnir hafa sótt enn meira í sig veðrið, aukningin í janúar milli ára er 95,4% og myndar þessi tegund bíla 5,4% bílaflota Norðmanna.
Loks hefur sala á fjórhjóladrifnum bílum aukist milli ára.
Þar sem nýir bílar eru sparneytnari en áður minnkar losun norska bílaflotans á gróðurhúsalofti stöðugt. Í janúar var meðallosun bíls á norskum vegum 128 grömm af koltvíildi á kílómetra, eða sjö grömmum minna en í janúar 2012. Hefur og meðaltalslosun bensínbíla minnkað um 5 grömm í 126 g/km. Og losun dísilbíla hefur einnig minnkað þótt meiri sé, en hún er nú 136 g/km.