Davíð Garðarsson hjá Eðalbílum segir frá:
„Nú á dögum er talað um „fyrir og eftir hrun“, eins og er talað um „fyrir og eftir seinna stríð“ úti í heimi. Allavega ætla ég að rifja upp eina skemmtilegustu jeppaferð/ferðalag sem ég hef farið hingað til, árið er 2006 – sem sagt fyrir hrun.
Ég er einn af stofnendum Íslandrover, félagi íslenskra Land Rover-eigenda, og er að sjálfsögðu virkur félagi ennþá. Árið áður, 2005, var ákveðið að fjölmenna til Bretlands, á stærsta Land Rover-mót í heimi sem er staðsett í Billing.
Við vorum nokkur sem tókum einkabílana með og voru þeir fluttir á fletum til Bretlands. Þeir komust ekki inn í gáma, þar sem þetta voru allt breyttir Land Roverar að íslenskum sið.
Svo flaug hópurinn til Bretlands og tók rútu til Hull, þar sem bílunum var skipað upp. Það var mikill spenningur þegar rennt var af stað frá Hull, ekki síst þegar keyrt var á öfugum vegarhelmingi – nú var ævintýrið virkilega að byrja.
Í hitabylgju án loftkælingar
Til að byrja með þræddum við sveitavegina, en það gekk frekar seint þannig að hópurinn skellti sér á aðalvegina og hélt sig á vörubílaakreininni. (38" dekkin eru nú engin hraðakstursdekk.) Ekki var laust við að hópurinn vekti athygli annarra vegfaranda, bílarnir á risastórum dekkjum á breskan mælikvarða.
Fyrir ferðina var minnsta áhyggjuefnið að ekki væri „air con“-kerfi í bílunum en þessa daga sem við vorum að ferðast til Billing, og á mótinu sjálfu, gerði eina mestu hitabylgju í yfir 100 ár í Bretlandi. Það fóru ófáir vatnslítrar ofaní mannskapinn og hefði maður alveg viljað vera með kælikerfi í bílnum þessa daga.
Þegar hópurinn renndi inn á svæðið, kom mér það á óvart hvað það var stórt. Þegar við vorum komin á okkar svæði, sem mótshaldarar höfðu tekið frá fyrir okkur og klúbbinn, flykktust gestir að til að skoða þessa íslensku Land Rovera. Þess má geta að þarna koma saman um 10.000 Land Roverar af öllum gerðum, og um 50.000 manns - allt Land Rover-áhugamenn og konur. Sem sagt Mekka Land Rover-manna.
Beðin um að prófa torfærubraut
Við settum upp tjöldin okkar, og flögguðum íslenska fánanum og Íslandrover-fánanum. Við vorum með rúllandi DVD-myndir á tölvu og fullt af plöstuðum ljósmyndum frá okkar ferðum, aðallega vetrarferðunum.
Daginn eftir að við komum bættist svo við hópur frá klúbbnum sem kom í flugi og var ekki á bílum. Þá voru orðnar nokkuð stórar íslenskar tjaldbúðir í kringum bílana okkar.
Það er alltaf einhver torfærubraut á öllum svona mótum og þarf maður að panta fyrirfram, þar sem ásóknin er svo mikil. Við höfðum ekkert hugsað útí þetta og var alveg sama, en mótshaldararnir vildu endilega sjá „stóru“ bílana í brautinni.
Það fór einn af mótshöldurunum sem farþegi með mér. Ekki reyndi nú mikið á drifgetuna, en maður reyndi að sletta drullunni upp í loft. Þetta var bara gaman og farþeginn minn skemmti sér konunglega. Á leiðinni aftur inná tjaldsvæðið gerði svo nokkuð óvænt hálfgerðan hitabeltisstorm, sem stóð yfir í um 2 klukkustundir, með beljandi rigningu og roki, svo að það brotnuðu stórar trjágreinar. Það var töluvert tjón af þessu, meðal annars einn bíll gjörónýtur eftir stóra grein sem datt ofaná hann. Menn höfðu aldrei upplifað þetta áður.
Haldið heim
Fyrr en varði var kominn sunnudagur og fólk fór að taka saman og halda heim á leið. Flughópurinn fór aftur til Íslands en við á bílunum héldum ferðalaginu áfram um Bretland. Við komum við í Wales, meðal annars, og voru þetta virkilega skemmtilegir dagar, þar sem ekkert var ákveðið fyrirfram, heldur bara dagarnir látnir ráðast.
Svo tókum við okkur út úr hópnum, ég og systir mín og okkar fjölskyldur á 2 bílum, og stefndum til Svíþjóðar. Kannski meira um þá ferð seinna. En þessi ferð var allavega ógleymanleg og var stiklað á mjög stóru í þessari frásögn.“
Hefur þú farið í eftirminnilegan bíltúr? Sendu texta og myndir á bill@mbl.is