Sala nýrra bíla eykst á Íslandi

Nýir bílar bíða tollafgreiðslu á hafnarbakka.
Nýir bílar bíða tollafgreiðslu á hafnarbakka. mbl.is/Árni Sæberg

Á sama tíma og umtalsverður samdráttur hefur orðið í bílasölu í svæði Evrópusambandsins (ESB) og EFTA í nýliðnum janúarmánuði var öldin önnur á Íslandi. Hvorki meira né minna en 43,8% aukning varð í nýskráningu nýrra fólksbíla hér.

Er þá miðað við sama mánuð 2012 en þá var einnig um aukningu að ræða frá fyrra ári, að því er fram kemur á heimasíðu Bílgreinasambandsins. Þetta má svo skoðast í ljósi þess, að samdráttur í bílasölu hér á landi kreppuárið mikla,  2009, var í kringum 90%.

Í einstökum ESB/EFTA-ríkjum varð samdrátturinn í janúar mestur í Grikklandi,  34,5%. Í Hollandi varð hann 31,2%, Ungverjalandi 26,1% og á Kýpur 20,8%.
 
Í nokkrum löndum varð aukning í sölu nýrra bíla; í Eistland 28,4%, í Danmörku 14,5%, í Belgíu 13,3% og í Bretlandi 11,5%.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina