Meðal gripa á bílasýningunni sem hefst í Genf í Sviss á morgun verður þriggja hjóla rafbíll frá Toyota sem fengið hefur nafnið i-Road. Er þar á ferðinni tveggja manna borgarbíll með drægi upp á 50 kílómetra á hleðslu.
Bíll þessi líkist býsna mikið Twizy frá Renault og verður eflaust skæður keppinautur hans. Toyota i-Road má hlaða til fulls á þremur stundum með venjulegri rafmagnsleiðslu í heimakló. Er hann ekki smíðaður með hraðhleðslu í huga.
Fyrirferðalítill er líklega það orð sem best nær yfir i-Road því hann er aðeins 85 sentímetrar á breidd og þarf þar af leiðandi ekki stórt stæðispláss. Hámarkshraði er 45 km/klst en á þeim hraða er drægi hans minni en að framan greinir. Aka má allt að 50 km miðað við 30 km/klst meðalhraða.
Toyota i-Road er búinn stöðugleikakerfi sem nefnt er „Active Lean“ sem sagt er þess eðlis að ökumaður þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að bíllinn velti. Beygjuradíus bílsins er aðeins þrír metrar.
„Miklar líkur“ á framleiðslu
Toyota segir að bíll þessi muni henta vel í skyndibílaleigur eins og á borð við reiðhjólaleigur sem vinsælar eru í t.d. París og London.
Hvorki hafa verið nefndar neinar dagsetningar eða ártöl um hvenær i-Road kemur á götuna fjöldaframleiddur. Og á þessu stigi hafa engar ákvarðanir verið teknar um smíði bílsins, þótt af Toyota hálfu séu talað um að „miklar líkur“ séu á því.