Nýliðið ár létust 175 manns í umferðinni í Danmörku. Há tala en engu að síður sú allra lægsta frá því á fjórða áratug síðustu aldar. Hefur bana- og alvarlegum umferðarslysum í Danmörku fækkað um helming á áratug.
Þetta er í fyrsta sinn sem banaslysin eru innan við 200 yfir árið í Danmörku, og nemur fækkunin milli ára 20%, en árið 2011 biðu 220 manns bana.
Mestar hafa framfarirnar í umferðaröryggi verið á Jótlandi. Hagstæðu veðri er þakkað að einungis 12 biðu bana í desember sl., miðað við 26 manns árið 2011. Frá því farið var að halda skrár um meiðsl og manntjón í umferðinni í Danmörku fyrir um áttatíu árum hafa banaslysin ekki verið færri, ef undan er skilið árið 1941, er Danmörk var á valdi þýskra nasista, en þá létust 174 á vegum landsins. Auk þessa fækkaði þeim um 11% sem slösuðust í umferðinni í Danmörku í fyrra en 3.610 manns meiddust, misjafnlega mikið, samkvæmt slysaskrám. Þróunin sl. tíu ár þykir markverð því á þeim tíma hefur banaslysum fækkað um 58% og 57% færri slösuðust.
Að sögn dönsku vegagerðarinnar er ástæður fækkunarinnar einkum og sér í lagi að finna á Jótlandi. Umferðarhraði á þjóðvegum hafi lækkað, hraðskreiðum ökumönnum hafi snarfækkað á vegunum. Bendir vegagerðin á, að hlutfallsleg fækkun látinna og slasaðra í umferðinni allra síðustu árin sé langmest í aldurshópnum 18 til 24 ára.
agas@mbl.is