Svífandi bílar næsta skref?

Já já, af hverju ekkI?
Já já, af hverju ekkI?

Í marga áratugi hefur það verið vinsælt þema að tengja fljúgandi bíla við framtíðina. En hvað ef við eigum ekki að blanda saman bílum og flugvélum, heldur bílum og svifnökkvum?

Svifnökkvar eru þeim eiginleikum gæddir að þeir komast ferða sinna hvort sem er land eða sjór undir þeim, svo lengi sem yfirborðið er sæmilega slétt. Volkswagen er með á teikniborðinu svifnökkva-„bíl“ sem heitir Aqua og virðist ætla að framleiða nothæfan bíl á næstu 7 árum eða svo.

Verði það næsta skref munu bílar ef til vill ekki fljúga, heldur svífa. Það er líklega einfaldara, því annars þyrfti að fjölga flugumferðarstjórum til muna. 

En það er ekki það eina sem Volkswagen er að bralla. Í fyrra stóð fyrirtækið fyrir átaki í Kína til að fá almenning til að senda inn sínar hugmyndir um bíla framtíðarinnar.  

Það er reyndar ekki alveg ljóst hvort svifbíllinn í myndbandinu hér fyrir neðan var innsend hugmynd, eða hvort um auglýsingu er að ræða fyrir átakið (hér er myndband með forsögu bílsins), en það er allavega skemmtilegur framtíðarbragur á honum.

Rétt er að taka fram að um tæknibrellur er að ræða, en þó er ekki útilokað að við gætum einn góðan veðurdag séð eitthvað þessu líkt yfir götum bæjarins. Smelltu hér til að sjá sama myndband með enskum texta.

Hér að neðan eru þrjú myndbönd. Fyrst er svifbíllinn frá Volkswagen, og svo Aqua-hugmyndabílnökkvinn og loks gamalt myndband sem sýnir lítinn svifnökkva í mótorhjólastærð í notkun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina