Bolir til að gabba lögguna

Bílbelti bjarga mannslífum, um það efast fæstir. Engu að síður eru þeir til sem þráast við og keyra án þess að hafa beltið spennt. Í Kína hefur þvermóðskan gengið skrefinu lengra og nú er hægt að fá bol sem fær lögregluna til að halda að ökumaður sé með spennt belti, þó svo að það sé ekki raunin.

Í Kína er notkun bílbelta skylda, rétt eins og á Íslandi. Ef lögreglan stoppar ökumann sem er ekki með beltið spennt þarf hann að borga sekt sem nemur rúmum þúsund krónum, og færð tvo punkta á ökuskírteinið. Sé ökumaður með tólf punkta, missir hann skírteinið, segir í frétt Autoblog.

Bolurinn, sem sjálfur kostar um þúsund krónur, eða álíka mikið og sektin, er með svarta rönd sem ætlað er að líkja eftir bílbelti, svo að úr fjarlægð sýnist ökumaðurinn hafa spennt beltið. 

Þó að bolurinn sem slíkur sé ekki ólöglegur er það álit lögregluþjóna í Kína að hann stuðli að sjálfsblekkingum. Enda veitir bómullarbolur litla hjálp í árekstrum og veltum.

Loks er það vandséð hvernig vesenið við að kaupa bolinn, og klæðast honum í hvert skipti sem sest er undir stýri, getur flokkast undir minna vesen en að spenna bara beltið og lifa af umferðaróhöpp.

mbl.is

Bloggað um fréttina