Hvað telst vera tjónabifreið og hvað eru dekk? Þetta eru spurningar sem nemendur við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins leituðu svara við á verklegum degi í dag. Markmið kennslunnar er að sjá til þess að lögreglumenn séu vel upplýstir um búnað ökutækja.
„Þegar lögreglumaður kemur á slysavettvang þá er það eitt af hlutverkum hans að kanna dekkjabúnað bílsins sem lendir í tilteknu óhappi. Hann þarf að skrifa það í sína skýrslu hvers konar dekk voru undir bílnum og hvor þau voru slitin,“ segir Kristófer Sæmundsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hann er jafnframt stundakennari við lögregluskólann í umferðafræðum.
Hann nefnir sem dæmi, að of lítill loftþrýstingur í hjólbarða geti verið orsök umferðaróhapps. „Þetta er til að skapa svolitla vitund hjá þeim um að dekk eru ekki bara dekk. Það er ýmislegt sem þarf að athuga í því sambandi,“ segir Kristófer.
„Það var verið að fara með þeim yfir praktíska hluti. Við byrjuðum í morgun á að fara yfir tjónaðar bifreiðar. Hvað þarf bifreið að uppfylla til að teljast tjónabifreið í skilningi þess að númer séu tekin af og stimpill settur í ökutækjaskrá um tjónabifreið. Og hvert hlutverk lögreglu er í því þegar hún kemur á slysa- og óhappavettvang,“ segir Kristófer.
Í kjölfarið heimsótti hópurinn Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns í Hátúni í Reykjavík. Þar var farið yfir mismunandi gerðir af hjólbörðum og hlutverk þeirra undir bifreiðum. „Hvað er hjólbarði? Sumardekk, vetrardekk, heilsársdekk, nagladekk, loftþrýsting og hvað má hjólbarði vera mikið slitinn og annað slíkt,“ segir Kristófer. Það sé mikilvægt að lögreglumenn viti hvað sé í lagi og hvað í ólagi í þessum efnum og að þeir átti sig á því hvað sé hjólbarði af sömu gerð.
Eftir heimsóknina í Hátúnið lá leið hópsins síðan suður í Garðbæ, en hann kom sér fyrir á bílastæðunum fyrir framan verslun IKEA í Kauptúni. Þar leituðu nemendurnir samvinnu við ökumenn sem voru beðnir að svara spurningum varðandi sinn dekkjabúnað. Í framhaldinu fengu nemendurnir að skoða og mæla hjólbarðana.
„Síðan verður þetta borið saman við svör ökumannanna og þá vonumst við til þess að fá samanburð á taldri vitneskju og raunveruleikanum,“ segir Kristófer og bætir við að unnið verði úr niðurstöðunum í næstu viku.
„Þetta gekk mjög vel. Við töluðum þarna við hundrað ökumenn og allir voru boðnir og búnir að liðsinna okkur í því og við kunnum þeim góðar þakkir fyrir.“
Fulltrúar frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda tóku einnig þátt í vinnudegi nemendanna í dag. Kristófer segir að vonir standi til að hægt verði að kynna niðurstöður könnunarinnar á vegum FÍB sem marktæka niðurstöðu. „Til þess að vekja fólk almennt til vitundar um skóbúnaðinn á sínum bílum,“ segir Kristófer.
Í upphafi árs hófu 19 nemar grunnnám við lögregluskólann og munu þeir ljúka sínu námi í lok árs. Kristófer segir að markmið verklegrar kennslu sé ekki síður að ná skjálftanum úr nemendum og kenna þeim að eiga samskipti við annað fólk.