Smíðaði loftknúinn bíl í skúrnum heima

Peter Dearman er það sem í daglegu tali er kallað …
Peter Dearman er það sem í daglegu tali er kallað grúskari. http://www.dearmanengine.com

Loftknúnir bílar eru alls ekki ný hugmynd, en það er hins vegar frekar sjaldgæft að menn séu að smíða slíkar græjur í bílskúrnum heima.

Það er samt akkúrat það sem Peter Dearman gerði. Hann breytti gömlum skrjóð þannig að hann gengur á loftinu einu saman. Hráefnið sem hann notaði í smíðina kemur úr ýmsum áttum, allt frá gamalli ruslafötu yfir í eitthvað sem líkist einna helst bjórkút. En það virkar.

Það sem gerir aðferð Dearmans frábrugðna öðrum aðferðum er að hann kælir loft niður fyrir -196 C° og við það verður það að vökva sem er einfaldara að geyma en þrýstiloft, að hans sögn, auk þess sem fljótlegra er að fylla á tankinn. Þegar loftið er hitað  þenst það út og er þá notað til að knýja mótorinn.

Í augnablikinu er drægi tilraunabílsins takmarkað við 5 kílómetra, og hámarkshraðinn er um 65 km á klst. En Dearman hefur hafið samstarf við fyrirtæki um að þróa vélina áfram og gera úr henni notendavænan og raunhæfan kost.

Hér að neðan eru tvö myndbönd með Peter Dearman, og þar fyrir neðan er myndband um bíl sem knúinn er þrýstilofti, kemst á 80 km hraða og alls 150-200 km á einni áfyllingu. Áætlað er að sá bíll geti kostað um 1,2 milljónir króna.

mbl.is