Svona smíðar maður Trans Am

Hvað þarf til að breyta Chevrolet Camaro í Trans Am? Félagarnir í Trans Am Depot ættu að vita það, enda vinna þeir við einmitt það, dag og nótt. Í tveimur stuttum heimildarmyndum er farið yfir breytingarnar, hvernig fyrirtækið varð til og hvað það er við afl og hraða sem hefur ávanabindandi áhrif.

Eins og við höfum áður sagt frá er Trans Am Depot með einkarétt á að nota Trans Am nafnið. Eftir að Pontiac hætti starfsemi árið 2010 leit ekki út fyrir að fleiri Trans Am bílar yrðu framleiddir, þar til tveir bræður ákváðu að safna í lið með sér fagfólki á heimsmælikvarða og láta drauma sína rætast. Nú smíða þeir Trans Am bíla eftir pöntunum og eftir óskum hvers viðskiptavinar.

„Þeir sem halda að þetta snúist um að skrúfa „boddí kitt“ á bílana hafa ekki hugmynd um hvað við gerum,“ segir einn starfsmaðurinn. Vinnan að baki hverjum bíl, bæði í hönnun og smíði, er ótrúleg. Rétt eins og ferilskrá starfsmannanna en margir þeirra hafa unnið við gerð bíla sem flest okkar dreymir aðeins um.

Skoðaðu heimildarmyndirnar hér fyrir neðan, og ef þú ert í flippuðu skapi getur þú líka skoðað auglýsinguna fyrir Hurst Trans Am, sem við birtum fyrr í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina