Eyðslugrennstir ekki endilega hagkvæmastir

Hagkvæmustu kaupin? Suzuki Alto.
Hagkvæmustu kaupin? Suzuki Alto.

Að kaupa sparneytinn bíl til að minnka útgjöld heimilisins gæti hljómað eins og góð hugmynd. Það er þó vissara að skoða málið til enda, því kaupverð bílsins getur gert eldsneytissparnaðinn að engu.

Ef tekinn er saman listi yfir sparneytnustu bíla hvers framleiðanda, sem íslensk bílaumboð bjóða upp á, sést að á toppi listans eru tvinnbílar sem eyða frá 1,2 til 2,1 lítra á hverja ekna 100 km í blönduðum akstri).

Þeir eru hins vegar með dýrustu bílunum á listanum líka. Sé eldsneytisverð dagsins í dag haft til hliðsjónar er hægt að búa til „þriggja ára verð“ sem samanstendur af kaupverði bílsins og eldsneytiskostnaði í þrjú ár. Að þessu sinni er miðað við 25.000 km akstur á ári og ekki eru teknar aðrar tölur inn í reikninginn, eins og tryggingar, viðhald og þess háttar.

Séu þessar tölur svo bornar saman á milli bíla sést að tvinnbílarnir lenda mjög neðarlega á listanum, og skýrist það með háu kaupverði í samanburði við marga aðra bíla á listanum.

Sé „þriggja ára verðið“ haft að leiðarljósi kemst Suzuki Alto efst á lista, en hann er hins vegar í 19.-20. sæti á eyðslulistanum. Eldsneytiskostnaður Suzuki Alto á þremur árum er 276.950 kr., miðað við núgildandi eldsneytisverð. Sami kostnaður fyrir Chevrolet Volt, bílinn með minnstu eyðsluna á listanum, er hins vegar 76.350 kr. 

Munurinn, á þremur árum, er því 200.600 kr. Verðmunurinn á bílunum er hins vegar 5,7 milljónir.

Tekið skal fram að aðeins er um óvísindalega talnaleikfimi að ræða, til að gefa hugmynd um hversu mikill munur getur verið á umræddum bílum. Einnig er rétt að benda á að stærð, gæði og búnaður geta verið mjög mismunandi á milli bíla og er ekki tekið tillit til þess í samanburðinum.

Loks er svo ekki tekið tillit til endursöluverðs, en sé það skoðað gæti dæmið snúist aftur við í einhverjum tilfellum.

mbl.is

Bloggað um fréttina