Rafmagnsbílar heillum horfnir

Stórleikarinn Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóri í Kaliforníu og stofnandi R20-samtakanna, …
Stórleikarinn Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóri í Kaliforníu og stofnandi R20-samtakanna, gengur framhjá Belumbery-rafbíl í grænu álmunni á sýningunni í Genf. Samtökin starfa að vistvænni þróun. mbl.is/afp

Tvennt einkenndi fyrst og fremst alþjóðlegu bílasýninguna í Genf fyrr í mánuðinum. Annars vegar bjartsýni og dirfska framleiðenda eðalvagna og rándýrra sportbíla og hins vegar heillum horfnir rafmagnsbílar.

Þannig var um fjölmarga spennandi bíla og dramatískar frumsýningar að ræða af hálfu bílsmiða á borð við Ferrari, Lamborghini, McLaren, Rolls-Royce, Bentley og fleiri.

Hlutlaus vígvöllur

Genfarsýningin er tiltölulega hlutlaus vígvöllur bílaframleiðenda og þar reyna þeir að slá hver annan út með framboði nýrra bíla og hugmyndabíla sem móta bílgreinina það sem eftir er ársins. Að þessu leyti hefur sýningin í Genf oft verið kölluð loftvog strauma og stefna innan bílgreinanna á heimsvísu.

Í ár leiddi hún í ljós að efnahagskreppa hefur bitnað miklu vægar á smíði og sölu lúxusbíla og kraftmikilla ofurbíla sem dómineruðu sýninguna í Genf í ár á kostnað fjöldaframleiddra fólksbíla.

Trúin hefur dvínað

Eftir að hafa verið miðpunktur allrar athygli á sýningum nokkur undanfarin ár fór lítt fyrir rafbílum í Genf í ár því framleiðendur eru orðnir þreyttir á biðinni eftir að sala þeirra taki við sér. Nokkrir rafbílar voru sýndir en ekkert nýtt módel þó og yfirmenn sem voru viðstaddir fjölmiðladagana tvo fyrstu sýningardagana nefndu þá tæpast - þegar viðbrögð og áhugi gesta var ræddur að sýningunni lokinni.

„Trú almennings á rafbílinn hefur verið að dvína frá því hún náði hámarki og við töluðum um ekkert annað á Parísarsýningunni árið 2010,“ hefur franska fréttastofan AFP eftir sérfræðingi hjá BIPE, Clement Dupont-Roc.

Hin gríðarlega hraða minnkun á útblæstri gróðurhúsalofts sem bílar losa frá sér gekk sem rauður þráður í gegnum sýningarsvæði bílsmiðanna í Genf. Bílafyrirtækin hafa lagt – og leggja enn – mikið kapp á að draga úr koltvíildismengun bíla sinna og hafa náð meiri árangri í því en talið var hægt fyrir aðeins nokkrum árum.

Með hjálp tvinntækninnar mun 220 hestafla Lexus IS forstjórabíll með 2,5 lítra vél sem losar innan við 100 g/km af gróðurhúsalofti verða fáanlegur síðar í ár, að því er fram kom á sýningunni í Genf. Þá mun Volkswagen Golf Bluemotion, með 110 hesta og 1,6 lítra dísilvél aðeins losa 85g/km. Langbakur sömu gerðar mun losa 87 g/km eða það sama og Skoda Octavia. Og því var spáð í Genf, að áframhald yrði á þessari þróun því enginn bílsmiða hafi verið fáanlegur til að viðurkenna að endimörkum þessarar þróunar hefði verið náð; enn væri rúm til að betrumbæta brunavélina.

Næst kemur New York

En þó sýningin í Genf hafi verið hestaflaveisla með Ferrari og McLaren í fararbroddi þá snerist hún þó ekki einvörðungu um hraðskreiða bíla sem eru á verði langt umfram kaupgetu venjulegs fólks. Þar var einnig að finna spennandi nýjungar í flokki sparneytinna almenningsbíla - en smíði og þróun á því sviði er mjög hröð um þessar mundir.

Gerjunin hefur verið hröð í bílaiðnaði undanfarin ár þrátt fyrir krepputíma. Og til marks um að þar stendur tíminn ekki í stað þá er Genfarsýningunni vart lokið þegar önnur stórsýning er opnuð; bílasýningin í New York, sem hefst í þessari viku.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina