Útlit er fyrir að marsmánuður í Evrópu hafi verið bílaframleiðendum erfiður með áframhaldandi samdrætti í sölu.
Skýrt var frá því í dag, að bæði í Frakklandi og á Spáni hafi bílasalan í mars verið um 14% minni en í sama mánuði í fyrra.
Þrátt fyrir niðurgreiðslur til bílakaupa sem verið hafa í gildi frá í október sl. dróst salan á Spáni saman um 13,9% sem kemur í kjölfar 9,8% samdráttar í febrúar. Og fyrstu þrjá mánuði ársins er bílasalan 11,5% minni en á sama tímabili fyrir ári. Um helmingur bílkaupenda hefur nýtt sér niðurgreiðslurnar sem þannig hafa dregið aðeins úr söluhruninu.
Samdrátturinn í bílakaupum fyrirtækja á Spáni er enn meiri fyrstu þrjá máunðina, eða um 20%. Segja samtök bílgreina, Anfac, það mikið áhyggjuefni.
Í Frakklandi féll bílasala um 16,2% í mars og um 14,4% fyrstu þrjá mánuðina, en þá mánuði er salan minni en nokkru sinni í fimm ár. Samdrátturinn bitnaði harðar á frönskum bílsmiðum fyrsta fjórðunginn. Þannig er samdrátturinn 11,1% á tímabilinu hjá Renault og 16,9% hjá PSA Peugeot Citroen.