Chevrolet Impala var ein af táknmyndum Bandaríkjanna þegar hann kom fram á sjónarsviðið 1958 enda var bíllinn stór og aflmikil amerísk drossía.
Nú er Chevrolet að kynna tíundu kynslóð bílsins og er búist við að hún verði einn af senuþjófunum á bílasýningunni í New York sem er að hefjast. Bíllinn er byggður á sterkri arfleifð Impala í gegnum áratugina og býr um leið yfir allri þeirri tækniframþróun sem orðið hefur á þessum tíma. Hann er 5,13 m á lengd og hjólhafið er hvorki meira né minna en 2,84 m.
Impala kemur á 20 tommu álfelgum og undir vélarhlífinni er 3,6 l, V6-vél sem skilar 303 hestöflum. Með þessari vél og sex þrepa sjálfskiptingu hraðar þessi stóri bíll sér í 100 km hraða á 6,8 sekúndum.
Vélin býr líka yfir gríðarlegu togi eða 358 Nm við 5.200 snúninga á mínútu. Engu að síður er eyðslan hófleg með nýrri spartækni sem stuðst var við í vélarhönnuninni.
En það er ekki einungis afl og glæsilegt útlit sem Impala snýst um. Hann gerir tilkall til þess að falla í lúxusbílaflokk með frágangi og efnisvali í innanrýminu en ekki síst hátæknibúnaði sem þar er að finna, að því er segir í tilkynningu frá Bílabúð Benna sem er umboðsaðili Chevrolet hér á landi.
Að framan er hann með upphituðum körfusætum sem eru stillanleg á tíu vegu og hann kemur leðurklæddur með fullkomnu loftfrískunarkerfi og hljómtækjum með raddstýrikefi, lyklalausu aðgengi og ræsingu, hraðastilli með aðlögunarhæfni, tíu öryggispúðum og blindblettavara, svo fátt eitt sé nefnt.
jonagnar@mbl.is