Vegirnir verndi mistæka ökumenn

Bílslys á Reykjanesbraut.
Bílslys á Reykjanesbraut. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Mistökum í umferðinni verður aldrei útrýmt. Ökumenn eru aðeins mannlegir og því er vitað mál að þeir munu sofna undir stýri, þeir munu gleyma sér við að hækka í útvarpinu eða kíkja á símann, keyra of hratt eða undir áhrifum. Slík mistök eiga hins vegar ekki að vera dauðadómur. Til þess þarf að smíða vegakerfi sem verndar vegfarendur.

Þetta sagði Mike Dreznes, sérfræðingur í umferðaröryggismálum, á ráðstefnunni Verndandi vegir (e. Forgiving Highways) sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda efndi til í morgun. Dreznes er varaforseti International Road Federation og situr í starfshópi Sameinuðu þjóðanna um svonefndan Áratug aðgerða í umferðaröryggismálum.

Rúm milljón deyr tilgangslausum dauða

Á þessu ári munu rúmlega 1,2 milljónir manna deyja í umferðarslysum, samkvæmt því sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, áætlar. Banaslys í umferðinni eru heilbrigðisfaraldur að mati WHO og Sameinuðu þjóðirnar segja að verði ekkert gert megi búast við því að fjöldi dauðsfalla á ári fjölgi innan áratugs úr rúmri milljón í 2 milljónir á ári.

Dreznes hefur sjálfur ferðast víða í starfi sínu til að rannsaka vettvang banaslysa og segist hann sjá sömu gallana í vegagerð um allan heim. Á sumum stöðum, s.k. svörtum blettum í vegakerfinu, verða ítrekað banaslys af sömu orsökum. 

„Það versta við starfið mitt er að fara á þessa staði, rannsaka slys og útskýra fyrir yfirvöldum að það sem þurfi að gera sé mjög einfalt, en koma svo aftur eftir 6 mánuði og sjá að ekkert var gert og fleiri dóu tilgangslausum dauða,“ sagði Dreznes.

Vegir sem „fyrirgefa“ ökumanninum mistök

Sameinuðu þjóðirnar hleyptu af stokkunum alheimsátakinu Áratugur aðgerða árið 2011, sem miðar að því að fækka dauðsföllum og alvarlegum slysum í umferðinni fram til ársins 2020, í stað þess að fjölga þeim. Ísland er eitt af þeim löndum sem hefur skuldbundið sig til þátttöku. 

Dreznes benti á það að viljinn væri víðast hvar til staðar, yfirvöld um allan heim skrifi undir að taka þátt. „Vandamálið er bara að ég held að margir viti ekkert hvað eigi svo að gerast næst.“

Hugmyndafræðin á bakið við verndandi vegi er að hanna og byggja vegakerfi sem „fyrirgefur“ vegfarendum þótt þeir geri mistök. „Það verða alltaf slys. Það er ekkert til sem heitir hinn fullkomni bílstjóri. Það sem þið þurfið að gera hér á Íslandi er að horfast í augu við þá staðreynd að fólk gerir mistök, en koma í veg fyrir að þegar þau mistök eru gerð undir stýri leiði til hræðilegra slysa,“ sagði Dreznes.

Samspil vegfarenda, ökutækja og vega

Hann sagði grunnstoðir umferðaröryggis vera þrennar. Í fyrsta lagi vegfarendur sjálfir, sem þurfi að fræða frá unga aldri um hvernig eigi að vera góðir vegfarendur, góðir farþegar og góðir ökumenn. Ökunám á Íslandi hefur tekið miklum framförum og árangurinn leynir sér ekki því ungir ökumenn valda marktækt færri slysum en áður.

Í öðru lagi séu það ökutækin sjálf. Þar hefur gríðarmikill árangur náðst í öryggismálum undanfarna áratugi. Bílaframleiðendur keppast við að þróa hönnun bíla þannig að þeir valdi ekki banaslysum og má þar m.a. nefna Volvo sem hefur verið í fararbroddi og sett sér það opinbera markmið að enginn deyi í Volvo eftir árið 2020.

Þriðja og síðasta grunnstoð umferðaröryggis er að sögn Dreznes vegirnir. Hann benti á að um í um þriðjungi allra banaslysa í umferðinni eigi í hlut eitt ökutæki og engir gangandi vegfarendur. Yfirleitt megi koma í veg fyrir að slík slys endi með dauða með því að bæta veginn þar sem slysið varð.

Ekki bíða þar til einhver deyr

Sem dæmi nefndi Dreznes vegrið. Lengi vel hafi flest vegrið staðið beint út á endanum án þess að gefa eftir við árekstur. Fjölmörg dæmi séu víða um heim af banaslysum sem verða þegar ekið er á slík rið og þau ganga inn í bílinn, afhöfða jafnvel ökumanninn. Lausnin við þessu var talin vera vegrið sem sveigjast niður á við en reyndin varð önnur, slík rið verða til þess við árekstur að bíllinn tekst á loft og kastast fram á við. Vegrið sem sveigjast niður á við hafa nú verið bönnuð í Bandaríkjunum.

Dreznes lagði áherslu á að vegamálayfirvöld sem og vegagerðarmenn þurfi að starfa af ábyrgð og hafa metnað fyrir því að kynna sér nýjustu rannsóknir og tækni í umferðaröryggismálum. Það sé sárt að horfa upp á þegar þekkingin og tæknin til að koma í veg fyrir dauðsföll sé til staðar, en ekki nýtt.

Hann sagði það grundvallaratriði í vegagerð að setja aldrei neinskonar mannvirki á eða við vegi án þess að hægt sé að sýna fram á að þau hafi verið prófuð og að þau virki.

„Enginn annar iðnaður myndi samþykkja að fórna öryggi og mannslífum til að spara smá pening,“ sagði Dreznes og bætti við að ákvarðanir í vegagerð væru upp á líf og dauða. „Þú vilt ekki bíða þar til einhver deyr.“

Staðreyndir WHO um banaslys í umferðinni. Smellið til að sjá …
Staðreyndir WHO um banaslys í umferðinni. Smellið til að sjá í stækkaðri mynd. Grafík/Elín Esther
mbl.is

Bloggað um fréttina