Ford og GM þróa saman gírkassa

Samstarf Ford og GM um smíði gírkassa er nýstárlegt.
Samstarf Ford og GM um smíði gírkassa er nýstárlegt.

Bandarísku bílrisarnir Ford og GM hafa ákveðið að efna til samstarfs um þróun nýrra níu og tíu hraða gírkassa af bestu gerð.

Þetta er liður í tilraunum bílaframleiðendanna til að draga úr eldsneytisnotkun bíla en nokkuð er um liðið frá því hönnuðir og tæknimenn fyrirtækjanna tveggja hófust handa þótt ekki sé opinberlega skýrt frá samstarfinu fyrr en nú.

Gírkassarnir verða bæði fyrir framdrifna bíla sem afturhjólsdrif og lofa Ford og GM að þeir muni hafa í för með sér sparneytnari bíla en afkastameiri.

Þetta er í þriðja sinn sem fyrirtækin tvö efna til samstarfs um þróun og smíði gírskiptinga. Áður hefur samstarfið leitt af sér sex hraða gæðaskiptingu fyrir framdrifna bíla og er hana að finna í rúmlega átta milljónum bíla um heim allan.

Nýju gírkassarnir verða lagaðir að öllum stærðarflokkum bíla og verða þannig fáanlegir í fólksbíla, jeppa og vörubíla.

mbl.is

Bloggað um fréttina