Mikil fækkun banaslysa

Banaslysum hefur fækkað um tæpan helming á síðustu fimm árum …
Banaslysum hefur fækkað um tæpan helming á síðustu fimm árum miðað við fimm árin þar á undan. Rax / Ragnar Axelsson

Fjöldi látinna í umferðinni árið 2012 var 9 sem er um 28 á hverja milljón íbúa sem er með því allra lægsta sem gerist í heiminum. Síðastliðin fimm ár (2008-2012) hafa 58 látist í umferðarslysum á Íslandi en næstu fimm ár þar á undan (2003-2007) létust 111 með sama hætti.  Er þetta um 48% fækkun.  Þetta kemur fram í skýrslu frá Umferðarstofu sem birt var á fimmtudag.

Alvarlega slösuðum fækkar á milli ára úr 154 í 136 eða um 12% fækkun.  Lítið slösuðum fækkar einnig talsvert, úr 1063 í 899 (15%). Í heildina fækkar látnum og slösuðum úr 1229 í 1044 eða um 15%.

Dauðsföllum á landinu í heild hefur fækkað í umferðinni á síðustu fimm árum. Samkvæmt tölum frá Umferðarstofu voru þau tæplega 7,4 að meðaltali á hverja 100 þúsund íbúa árin 2003-2007 en árin 2008-2012 voru dauðsföllin tæplega 3,7 á hverja 100 þúsund íbúa. Dánartíðni í umferðarslysum hefur því fallið um tæpan helming á síðustu fimm árum frá árunum fimm þar á undan.

mbl.is

Bloggað um fréttina