Hælisbíllinn á Kristnesi endurbyggður

Á Samgönguminjasafninu á Ystafelli í Köldukunn vinna tveir menn hörðum höndum við uppgerð á allsérstöku verkefni sem kallast í daglegu tali Hælisbíllinn.

Það eru þeir Sverrir Ingólfsson safnstjóri og Jón Sigurðsson sem vinna mest við bílinn með aðstoð góðra manna en uppgerðin er ekki einföld því að auk hefðbundinna verkefna eins og að taka upp vélarhluti og kram er verið að endurvekja íslenskt handbragð, nánar tiltekið íslenskar yfirbyggingar sem voru mikið notaðar hérlendis í eina tíð.

Byggt yfir bílinn á Akureyri

Bíllinn sem um ræðir var í upphafi undirvagn af Ford 1946 vörubíl sem keyptur var með brettum, húddi og hvalbak. Svo var byggt yfir hann þrefalt hús og pallur á yfirbyggingarverkstæði Gríms Valdimarssonar á Akureyri. Húsið tók tíu farþega auk bílstjóra og var sterkt og vandað, hægt var að skrúfa niður allar rúður á hliðunum og það var klætt í hólf og gólf með áklæði úr Gefjun. Þessi bíll var notaður í alla aðdrætti fyrir Kristneshæli í Eyjafirði frá 1946 til 1964. Þá var hann notaður í skemmtiferðir með sjúklinga og annað tilfallandi.

Rafn Helgason á Stokkahlöðum í Eyjafirði eignaðist hann á eftir hælinu, en seinna komst bíllinn í Ljósavatn í Kinn þar sem hann var rifinn og stóð húsið úti í mörg ár. Helgi Magnússon og Hinrik Thorarensen eignuðust það svo og fóru með það í geymslu inn í Eyrarvík, en Helgi og Hinrik gáfu safninu svo allt dótið árið 2010.

Tilbreyting í tréverkingu

„Við settum húsið inn í gamla verkstæðið hans pabba í ágúst 2010 og fyrsta veturinn horfðum við á það og reyndum að telja í okkur kjark meðan við vorum að vinna í öðrum verkefnum,“ sagði Sverrir safnstjóri í viðtali við Morgunblaðsins.

„Haustið 2011 var svo byrjað að vinna í undirvagninum. Við áttum grind og mótor úr öðrum bíl svo við kláruðum grindina og gangverkið að mestu leyti um vorið 2012. Í nóvember síðastliðnum var svo byrjað á húsinu. Við settum það upp á grindina til að láta húsið sitja rétt og spara pláss í leiðinni. Það er mikill munur að vinna í tréverkinu, miklu hreinlegra og að sumu leyti hvíld frá ryðbætingunum! Helsta vandamálið í þessari uppgerð er hvað timbrið var orðið illa farið, það vantar mikið á spýturnar og engar teikningar til, þannig að það fer mikill tími í að finna út hvernig hlutirnir voru upphaflega.“

Sverrir og Jón áætla að ljúka uppgerð bílsins áður en Kristneshælið verður 90 ára, það er árið 2017.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka