Gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar eru ennþá þau hættulegustu á landinu, hvað fjölda slysa varðar. Þar hafa orðið 174 slys og óhöpp á síðustu 5 árum, frá 2008-2012. Þrenn gatnamót við Miklubraut eru á lista yfir 20 verstu slysagatnamót landsins.
Í nýrri skýrslu Umferðarstofu um slys í umferðinni eru m.a. teknar saman upplýsingar um <a href="/frettir/innlent/2013/04/21/versti_vegkaflinn_er_a_sudurlandsvegi/">verstu vegakafla landsins</a>, sem og um hættulegustu gatnamótin í þéttbýli. Sjálfsagt kemur fáum á óvart að heyra að gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar séu þar efst á lista enda hafa flest slys orðið þar um nokkurra ára skeið.
Miðað er við 5 ára tímabil þegar slysin eru talin saman og hafa slys, með og án meiðslum, á þessum gatnamótum verið á bilinu 169 til 185 á hverju 5 ára tímabili frá 2004 til 2012.
<strong>Þúsundir ökutækja á sólarhring</strong>
Alls eru þrenn gatnamót við Miklubraut efst á listanum yfir þau 20 hættulegustu í þéttbýli síðustu 5 árin. Á eftir Grensás/Miklabraut eru næstflest slys á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, alls 147. Í þriðja sæti eru gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar, þar sem urðu 142 slys.
Ein helsta skýringin á þessu er auðvitað sú að Miklabrautin er helsta umferðaræð borgarinnar og um hana fara þúsundir ökutækja á hverjum sólarhring. Þó er leitast við að greina orsakir slysanna sem þarna verða og girða fyrir að þau endurtaki sig ef hægt er. Á sínum tíma munaði t.d. talsvert um það þegar sett voru upp beygjuljós á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Í fjórða sæti listans eru gatnamót Hringbrautar við Njarðargötu, þar sem urðu 126 slys á síðustu 5 árum. Í fimmta sæti eru krossgötur Hafnafjarðarvegar, Reykjavíkurvegar, Fjarðarhrauns og Álftanesvegar, þar sem urðu 111 slys á síðustu 5 árum.
<strong>Slysum fjölgaði við Lækjargötu</strong>
Þegar litið er til slysa með meiðslum lítur listinn aðeins öðru vísi út, en þó eru gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar einnig efst á lista því þar urðu 25 slys með meiðslum á síðustu 5 árum. Önnur hættulegustu gatnamótin hvað þetta varðar eru Bústaðavegur/Reykjanesbraut, þar urðu 22 slys með meiðslum.
Í þriðja sæti er Miklabrautin aftur á gatnamótum við Háaleitisbraut, þar sem urðu 18 slys með meiðslum á síðustu 5 árum, og í fjórða sæti eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem urðu 15 slys með meiðslum á tímabilinu.
Á þennan lista bætast ein ný gatnamót við síðan í fyrra, en það eru mót Lækjargötu, Bankastrætis og Austurstrætis. Þau eru í 12. sæti listans og urðu þar 10 slys með meiðslum á tímabilinu 2008-2012. Á móti detta út gatnamót Fífuhvammsvegar og Dalsvegar, sem voru meðal þeirra hættulegustu í fyrra.
Að öðru leyti eru sömu gatnamót á þeim lista á milli ára, enda um fimm ára summu að ræða og því er um að ræða hægari breytingar en ella.
Lista yfir hættulegustu gatnamótin í þéttbýli má sjá hér að neðan:
<strong>Slys og óhöpp, með og án meiðsla 2008-2012:</strong>
Nánari upplýsingar er að finna í
.
Frétt mbl.is: