Langlífir bílar í Noregi

Mikill fjöldi fornbíla hífir upp meðalaldur Chevroletbíla í Noregi.
Mikill fjöldi fornbíla hífir upp meðalaldur Chevroletbíla í Noregi. mbl.is/auctionsamerica

Þrátt fyrir velmegunina og minni vandræði en hjá flestum vegna kreppunnar er að finna í Noregi einn elsta bílaflota í Evrópu. Um leið er hann vistkerfinu hlutfallslega fjandsamur og minnst öruggur.

Þrátt fyrir að greitt hafi verið fyrir tilkomu rafbíla, tvinnbíla og annarra vistvænna bíla í seinni tíð hefur meðalaldur norska bílaflotans ekki lækkað sem um getur síðustu 20 árin.

Árið 1993 var meðalaldurinn 10 ár slétt og lækkaði ögn á tíunda áratugnum. En frá aldamótum hefur hann hækkað aftur og mælist nú 10,5 ár, samkvæmt nýjustu athugunum norsku hagstofunnar.

Þegar litið er á einstakar bíltegundir með tilliti til meðaldurs þeirra í Noregi kemur eitt og annað forvitnilegt í ljós. Það er til að mynda misskilningur að halda að Volvo og Mercedes séu í efstu sætunum. Langelsti bíllinn í bílaflota Norðmanna er Chevrolet, meðalaldur bíla af þessu merki er hvorki meira ne minna en 26,9 ár. Þar munar mikið um fornbíla af þessari tegund sem mikið er til af í Noregi.

Í öðru sæti er Rover með meðalaldurinn 17,7 ár og í þriðja sæti Chryslerbílar sem eru að meðaltali 16 ára. Á síðustu árum hafa Roverbílar lítt eða ekkert verið innfluttir og því hækkar meðaldur bíla þessarar gerðar hratt. Hið sama er að segja um hinn spænska Seat sem er í fimmta sæti með13,2 ára meðalaldur. Hann hefur sömuleiðis ekki verið innfluttur að ráði frá 2006.

Jeep er í fjórða sæti með 14,3 ára meðalaldur og Mercedes-Benz er svo í fimmta sæti með 12,5 ára meðalaldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina