Þjóðverjar hafa hafnað öllum hugmyndum um hraðatakmarkanir á hraðbrautum landsins. Stjórnmálamaður sem vildi innleiða slíkt var hafður að háði og spotti, bæði í fjölmiðlum og meðal annarra stjórnmálamanna.
Í frétt í Der Spiegel segir að í hverju landi eitthvað óvenjulegt sem skeri sig úr í þjóðarsálinni sem aðrar þjóðir hrista höfuðið yfir. Í Þýskalandi sé það umferðahraði á hraðbrautum en engar hraðatakmarkanir eru settar á ökumenn sem aka um þær.
Þegar stjórnmálamenn minnast á að nú sé kominn tími til þess að setja reglur um hámarkshraða eru þeir gjarnan gagnrýndir harðlega meðal annarra stjórnmálamanna sem og í fjölmiðlum. Hefur skortur á hraðatakmörkunum í Þýskalandi verið líkt við byssulöggjöfina í Bandaríkjunum, eða skort á henni, allt í nafni frelsisins.
Í síðustu viku lét Sigmar Gabriel, formaður Sósíal demókrata, hafa það eftir sér að nú væri kominn tími til þess að setja hraðatakmarkanir á hraðbrautum í Þýskalandi. Lagði hann til að gera ökumönnum skylt að aka á undir 120 kílómetra hraða. Benti hann á að nær alls staðar annars staðar í heiminum væri einhvers konar hámarkshraði við lýði og að rannsóknir sýndu að ef settur væri 120 kílómetra hámarkshraði myndi dauðaslysum í umferðinni fækka umtalsvert.
Orð hans vöktu hörð viðbrögð meðal flestra samlanda hans. Peter Ramsauer, samgöngumálaráðherra Þýskalands, sagði að ekki myndu verða gerðar breytingar. „Ekki á minni vakt“ er haft eftir Ramsauer í Der Spiegel. Fleiri tóku undir með Ramsauer, fólk úr öllu stjórnmálaflokkum í Þýskalandi.
Der Spiegel segir frá.