Ungverski bóndinn Istvan Puskas lætur sér ekki leiðast að óþörfu. Til að hafa eitthvað fyrir stafni í vetur smíðaði hann bíl sem er nánast eingöngu úr tré. Bensíntankurinn, fjöðrunin, öxlar, hjól og meira að segja gírkassinn, allt er það smíðað úr tré.
Istvan er 51 árs og hefur yndi af því að vinna með tré. Ekki síst að smíða óvenjulega hluti sem vekja athygli fólks. Hann á líka stuðningsmann heimafyrir, því konan hans, sem heitir því kaldhæðnislega nafni Iron, hvatti hann til dáða og Istvan hófst handa um jólin.
Fjórum mánuðum seinna rúllaði hann þessu furðuverki út á götur Tiszaros, þar sem hann býr. Þrátt fyrir að bíllinn standist ekki kröfur til að fá skráningu, hefur lögreglan á staðnum leyft Istvan að rúnta á kagganum á fáförnum götum í nágrenninu.
Istvan er enginn nýgræðingur í þess háttar trésmíði, því hann hefur meðal annars smíðað mótorhjól úr tré.
Þar sem Istvan og Iron eiga engan bílskúr kemur ekki annað til greina en að selja trébílinn. Ágóðanum ætlar Istvan að verja eins og allt gott bíladellufólk mundi gera - í næsta verkefni.
Það verður að öllum líkindum þriggja hjóla bíll, og væntanlega verður hann úr tré líka.