Er Barbíbílatorfæra besta mótorsportið í Ameríku?

Barbíbílatorfæra. Alharðasta mótorsportið í Ameríku.
Barbíbílatorfæra. Alharðasta mótorsportið í Ameríku.

Í Ameríkunni er iðkuð öðruvísi torfæra en hér á landi. Í stuttu máli gengur hún út á að setja stórar toppgrindur og slaglanga fjöðrun á venjulega jeppa og keppa svo um hver kemst hægast upp á stóran stein. Eða allavega eitthvað mjög nálægt því.

En djúpt í bandarísku þjóðarsálinni blundar þörfin fyrir meiri hasar, meiri hraða, fleiri veltur. Eins og í íslensku torfærunni. Því miður er ekki keppt í slíkri torfæru þar í landi svo úr varð nýtt mótorsport, sem er sennilega það besta sem hefur orðið til í Ameríkunni: Barbíbílatorfæra.

Í stuttu máli er keppt á leikfangabílum sem eru nógu stórir til að börn geti setið í þeim. Það eru þó engin börn sem keppa, heldur fulltíða fólk (stundum rúmlega það) sem þeysir niður brattar brekkur í kappi hvað við annað. Að sjálfsögðu eru allir í viðurkenndum öryggisbúnaði, eins og hettupeysum, gallabuxum og vinnuhönskum. 

Það skortir ekkert á spennuna og hraðann og veltur og árekstrar eru tíð sjón. Bílavefurinn Jalopnik birti nýlega nokkur myndbönd af Barbíbílatorfæru, og við látum þau bestu fylgja hér fyrir neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina