Þegar umferðarslys verður á 90 kílómetra hraða á klukkustund hraða leysast miklir kraftar úr læðingi eins og skemmdir á farartækjum gefa glöggt til kynna. Höggþungi 60 kílógramma manneskju, sem ekki er með bílbelti, getur numið allt að 8 tonnum þegar hún kastast til.
„Við erum að reyna að vekja athygli á notkun bílbelta og mikilvægi þeirra,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS.
Sigrún segir að samkvæmt könnunum VÍS noti 9% ökumanna á höfuðborgarsvæðinu ekki bílbelti. Símakannanir á vegum Umferðarstofu sýna að hlutfall þeirra sem spenna ekki beltin í aftursæti er mun hærra, en þriðjungur sagðist hafa verið farþegi í aftursæti í síðustu könnun þeirra án þess að spenna bílbeltið.
„Fólk virðist af einhverjum ástæðum ekki spenna beltin þegar það er farþegi í aftursæti. Við gerum lauslegar kannanir þar sem við fengum leigubílstjóra í lið með okkur. Þær kannanir sýndu svipaðar niðurstöður og hjá Umferðarstofu,“ segir Sigrún.
Sigrún segir ekki bara hættur fylgja því að einstaklingur sé beltislaus í bíl, heldur geta lausir hlutir sem ekki vega þungt orðið stórhættulegir við árekstur. „Tölvan er kannski laus aftur í bílnum eða eitthvað slíkt. Á 90 kílómetra hraða á klukkustund getur þyngd hlutar 130-faldast við árekstur. Þú getur prófað að vigta gemsann þinn og margfaldað með 130. Hann væri þá orðinn stórhættulegur ef hann myndi kastast eitthvað til,“ segir Sigrún.
Engum dylst að bílbelti eru mikilvægt öryggistæki bæði fyrir farþega og bílstjóra. Samt sem áður létust 49 einstaklingar í umferðarslysum á árunum 2000 til 2010 sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa telur að hefðu lifað ef þeir hefðu verið með bílbelti, þar af þrír á síðasta ári.