„Það gengur rosalega vel, margir eru mættir og bílstjórarnir með bros á vör,“ segir Desirée Dísa Ferhunde Anderiman, bóndi að Skeggjastöðum í Mosfellsdal. Hún stóð ásamt öðrum íbúum dalsins að kröfugöngu í hádeginu í dag vegna hraðaksturs á vegi 36 sem liggur eftir dalnum endilöngum.
„Bílarnir keyra svo hratt hér í gegnum dalinn og það hefur aukist mjög mikið síðan nýi vegurinn yfir Lyngdalsheiði var opnaður,“ útskýrir Dísa. „Fólk er að keyra hérna á 100 til 120 kílómetra hraða, en hámarkshraðinn er 70.“ Meðal þeirra sem teknir hafa verið fyrir hraðakstur í Mosfellsdal að undanförnu er bifreið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem tekin var á 106 kílómetra hraða.
„Mosfellsdalurinn er eins og lítið þorp, hér fara börn og dýr yfir veginn,“ útskýrir Dísa. Hún segir blikkandi ljós við enda dalsins engu skipta, bílarnir hægi ekki á sér. Aðspurð um viðbrögð yfirvalda við kröfum íbúanna segir Dísa fátt vera um svör. „Síðast fengum við skilti sem segir til um hámarkshraða, svo átti að gera meira en ekkert hefur verið gert. Það eru tvö ár síðan þetta var,“ en farið var í svipaða kröfugöngu í fyrra. „Við erum búin að biðja um undirgöng við Laxnes, hraðahindranir báðum megin við dalinn, eða málaðar línur á götuna til að vekja athygli ökuþóra því blikkandi ljósin duga ekki.“
„Við viljum gera þetta áður en slysin verða, en við sáum bæði í gær og í fyrradag hræðileg slys milli reiðmanna og bílstjóra,“ segir Dísa og vísar þar til fimm ára drengsins sem hlaut talsverða innvortis áverka þegar hann datt af hestbaki vegna gáleysis ökumanns í Garðabæ og sautján ára stúlkunnar sem datt af hestbaki í Hafnarfirði þegar bíll keyrði hjá henni og föður hennar í reiðtúr með miklum látum. „Umferðin eykst um 100% á hverju ári svo það verður að gera eitthvað í þessu núna, við ætlum ekki að bíða eftir því að slysin verði.“