Margir veigra sér við að aka erlendis, en því ætti ekki að fylgja mikil áhætta sé farið að lögum í hvívetna. Þeir ökumenn sem eru farsælir í sínu heimalandi geta búist við að þeir sé það líka erlendis.
Svipaðar reglur gilda um umferð í flestum löndum, en stundum eru þó ákvæði í gildi sem kunna að vekja spurningar hjá ókunnugum,“ segir Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu.
Margir bregða undir sig betri fætinum á sumrin, fara annað hvort á eigin bíl með Norrænu, staldra kannski við í Færeyjum. Halda svo áfram og aka t.d. frá Danmörku og þaðan hugsanlega suður á bóginn. Þá fljúga margir annað hvort til Evrópu eða vestur um haf, leigja sér þar bíl og halda svo út á akurinn. Sigurður Helgason segir í þessu sambandi að nauðsynlegt sé að fólk þekki umferðarlög og -reglur sem gilda í þeim löndum sem heimsótt eru. Mikilvægt sé að þekkja hvaða reglur séu um hámarkshraða og hvaða búnaður eigi að vera í bílnum.
„Umferðarmerki eru yfirleitt eins í löndum Evrópu eða þá mjög svipuð þannig að það liggur í augum uppi hvað þau þýða. Það er annars góð regla að skrifa hjá sér þýðingu á helstu orðum. Einnig þarf að hafa ökuskírteini alltaf meðferðis, sem og skráningarskírteini og tryggingaupplýsingar. Það er gott er að afla sér upplýsinga um hvort nauðsynlegt sé að hafa alþjóðlegt ökuskírteini, en FÍB býður upp á það,“ segir Sigurður.
„Miklu skiptir að virða jafnan reglur um bílastæði. Þar er mikilvægt að hafa allt á hreinu,“ segir Sigurður Helgason. Algengt er í útlöndum að lögregluþjónar sem koma að bílum sem lagt er ólöglega flytji þá á brott, eða læsi hjólum þeirra og þá er takinu ekki sleppt fyrr en sekt hefur verið greidd. Þá er heillaráð að kynna sér hvaða viðurlög eru við hverskonar umferðarbrotum, ekki síst atriðum eins og að tala í farsíma í akstri, aka án þess að hafa ökuljós kveikt, gefa ekki stefnuljós, t.d. þegar skipt er um akrein og svo framvegis.
Víðast hvar er hart tekið á þeim lögum og reglum sem gilda um áfengi, fíkniefni og akstur. Besta ráðið sem hægt er að gefa er að forðast algerlega áfengi sólarhring áður en sest er undir stýri. Í Frakklandi er ökumönnum gert skylt að hafa ölvunarmæli í bílnum og eru talsvert hörð viðurlög ef vanhöld eru á því. Þá er bannað að vera með radarvara í bíl í Frakklandi og varðar það 1.500 evra sekt, sem á gengi dagsins er kvartmilljón íslenskra króna.
sbs@mbl.is