Range Rover setur fjallaklifursmet

Bílstjórinn Paul Dallenbach við Range Rover Sport sem hann setti …
Bílstjórinn Paul Dallenbach við Range Rover Sport sem hann setti metið á

Fyrr í þessum mánuði keyrði nýr Range Rover Sport upp Pikes Peak í Colorado í Bandaríkjunum. Jeppinn setti metið í einkaprófi á fyrsta opnunardegi eftir vetrarlokun. Núna í vikunni fer hinsvegar fram árleg keppni upp Pikes Peak sem ber nafnið „Kappaksturinn til skýjanna“. Range Rover Sport fór upp fjallið á tólf mínútum og 35,61 sekúndu. Metið var sett í Range Rover Sport Supercharged sem er með 5,0 lítra átta strokka vél með keflablásara og skilar 510 hestöflum. Á bak við stýrið var áhættubílstjórinn Paul Dallenbach.

Vegurinn sem ekinn var er tuttugu kílómetrar og var meðalhraði jeppans 95 km/klst. á veginum. Það hljómar kannski ekki sem mikill hraði nema þegar tekið er tillit til þess að ekið var upp fjall á hlykkjóttum vegi. Á veginum voru 156 beygjur og var ekið úr 2.860 metra hæð upp í 4.300 metra hæð. Í þeirri hæð er 42 prósentum minna súrefni í loftinu en við sjávarmál sem hefur þau áhrif að vélin í bílnum skilar ekki jafn miklum krafti og bílstjórinn verður sljór.

mbl.is

Bloggað um fréttina