Vélhjólaveisla í motocrossi á Akranesi

Frá keppni á Íslandsmóti í motocross.
Frá keppni á Íslandsmóti í motocross. Ljósmynd/Sverrir Jónsson

Önnur umferð Íslandsmótsins í motocross fer fram á Akranesi á morgun, laugardag.  Aðstandendur segja það  verða sannkallaða vélhjólaveislu fyrir áhorfendur og hina 80 keppendur sem skráðir eru til leiks.

„Akurnesingar skarta einni glæsilegustu motocross-braut landsins og frábær umgjörð keppninnar verður að sjálfsögðu að hætti heimamanna,“ segja aðstandendur keppninnar. Hefst hún er þáttakendur í unglinga- og kvennaflokki verða ræstir af stað kl. 12:00 á hádegi.

Keppni í meistaraflokki hefst að því búnu, eða klukkan 13:30.

Fyrsta umferðin í Íslandsmótinu í motocrossi fór fram á Selfossi laugardaginn 8. júní sl. Þar spilaði veðrið stóra rullu en miklar rigningar dagana á undan og nóttina fyrir keppni olli því að brautin varð erfið yfirferðar og reyndi það bæði á hjól og keppendur.

Á Selfossi voru 73 keppendur skráðir og mátti sjá aukningu í minnsta flokknum sem er 85cc flokkur. Kári Jónsson sigraði, annar varð Viktor Guðbergsson ríkjandi íslandsmeistari og í þriðja varð Sölvi Borgar Sveinsson.

Það verður því forvitilegt að sjá hvort þeir komi eins sterkir til leiks á Akranesi á morgun. Veðurspáin fyrir laugardaginn er góð, 10 stiga hiti og léttir til með deginum sem verður að teljast topp aðstæður fyrir keppendur.

Vélhjólaíþróttafélag Akraness rekur Akrabraut, stórglæsilega braut sem er rétt fyrir utan kaupstaðinn.

Á meðfylgjandi myndbandi gefur að líta sýnishorn frá mótinu á Selfossi 8. júní sl.

mbl.is