Sala á nýjum bílum á fyrri hluta ársins minnkaði um tæplega 1% miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kom fram í tölum sem Bílgreinasambandið tók saman. Mikill samdráttur var í bílasölu á árunum eftir hrun, en á síðustu misserum hafa verið jákvæð teikn á lofti um að salan væri að fara að taka við sér. Það kom því nokkuð á óvart að sala á fyrri hluta ársins hefði dregist saman, en Erna Gísladóttir, forstjóri BL, segir í samtali við mbl.is að umskiptin gangi hægt fyrir sig.
„Við vonumst til að sjá fólkið meira eftir sumarið og verslunarmannahelgina. Þetta tekur svolítinn tíma, bæði að kaupa bíl og húsnæði. Þannig að við vonumst til þess að batamerkin komi, en þau sjást lítið svo ég segi það hreint út,“ segir Erna.
Hún segir að salan sé enn mjög lítil þar sem fólk haldi að sér höndum, meðal annars vegna þess dráttar sem hefur verið á úrlausnum á lánamálum og endurútreikningi. „Það eru margir sem vilja ekki skipta um bíl fyrr en gert hefur verið upp lánið á gamla bílnum.“ Þá telur hún að loforð ríkisstjórnarinnar haldi einnig aftur af fólki þangað til komið sé í ljós hvað eigi að gera nákvæmlega með lækkun lána.