Fyrri helming ársins fækkaði banaslysum í umferðinni í Frakklandi um 15,1% miðað við sama tímabil í fyrra, að því er innanríkisráðherrann, Manuel Valls, skýrði frá í morgun.
Samkvæmt upplýsingum franskra samgönguyfirvalda létust 257 færri frá áramótum til júníloka en í fyrra. Þá biðu 1.697 manns bana á vegunum en 1.440 í ár.
Franska stjórnin hefur sett sér það sem markmið við aðgerðir í umferðaröryggismálum, að árlegt manntjón á vegunum verði komið undir 2.000 manns árið 2020. Allt árið í fyrra biðu 3.645 manns bana á frönskum vegum, sem er met því aldrei hafa færri týnt lífi í frönsku umferðinni á einu ári.
Á öndverðum áttunda áratug nýliðinnar aldar lá manntjónið á bilinu 15-20 þúsund manns á ári í Frakklandi. Í millitíðinni hefur einna mest munað um tilkomu öryggisbelta, en einnig hafa vegið batnað, öryggi bíla aukist, eftirlit með hraðakstri verið stóreflt og ökuhraði verið lækkaður.