Borgarstjórnin í París, með Bertrand Delanoe borgarstjóra í broddi fylkingar, hefur þrýst mjög á um lækkun hámarkshraða á hraðbrautinni sem myndar hring um Parísarborg.
Talið er nú að jafnvel í haust, líklegast í október, eigi lækkun sér stað, úr 80 km/klst í 70 km/klst.
Parísarhringurinn er með fjórum akreinum í hvora átt og til mun hraðari aksturs gerður, en það er fyrst og fremst mengun og hávaði sem yfirvöld vilja draga úr með lækkun hámarkshraðans.
Í innanríkisráðuneytinu í París hefur þótt vera fyrirstaða við málið en í morgun lýsti Manuel Valls innanríkisráðherra sig hlynntan hraðalækkuninni.
Lögreglustjóri Parísarborgar tilkynnti í síðustu viku, að átta nýjum hraðamyndavélum yrði komið fyrir á hringveginum en þær voru jafnmargar fyrir og verða því alls 16. Á veginum er helmingur allra umferðarslysa rakinn til hraðaksturs, að sögn lögreglunnar.