Dýrasta útgáfan af nýjum Mercedes Benz S-Class hefur nú verið kynnt, þ.e. AMG-útgáfan. Byrjað verður að selja Mercedes Benz S63 AMG 4MATIC í nóvember. Þessi dýrasta útgáfa af S-Class er sportútgáfan og undir húddinu á bílnum er 5,5 lítra átta strokka vél með tveimur túrbínum. Vélin skilar 577 hestöflum og 664 lb/ft (900 Nm) af togi og dugar sá kraftur til að skila flaggskipi Benz í 100 km/klst. hraða á 3,9 sekúndum. Til að setja það í samhengi þá er 2013 árgerð af Porsche 911 Carrera rúmar fjórar sekúndur í 100 km/klst.
Nýr S63 AMG 4MATIC er 49 hestöflum kraftmeiri og 100 kílóum léttari en síðasta kynslóð af bílnum. Auk þess mun bíllinn vera eyðslugrennri og með sjö gíra sjálfskiptingu. Til að krafturinn skili bílnum áfram en ekki bara í dekkjareyk þá er hann fjórhjóladrifinn, en orðið 4MATIC í nafninu táknar fjórhjóladrifið.
AMG-útgáfan er breytt útlitslega frá öðrum S-Class-bílum. Stuðarar og sílsar eru lægri svo bíllinn virðist sitja nær jörðinni, en breytingarnar eru gerðar til þess að auka straumlínulögunina. Inni í bílnum eru sportsæti og -stýri.