Svissnesk kona var bókstaflega gripin með allt niður um sig um helgina þegar lögregla stöðvaði hana nakta á bak við stýri bifreiðar.
Um reglubundið umferðareftirlit lögreglu var að ræða, en einn karlmaður var með henni í bílnum. Parið viðurkenndi fljótlega að hafa í flýti skipt um sæti þar sem maðurinn var ekki með ökuskírteini á sér. Hann hafði þá einnig verið tekinn fyrir akstur án ökuskírteinis deginum áður og vildu þau ekki að upp kæmist um hann í annað sinn á tveimur dögum.
Konan neitaði hins vegar að gefa skýringar á því hvers vegna hún væri nakin.
Maðurinn var ákærður fyrir akstur án ökuskírteinis og bifreið hans var gerð upptæk. Konan var hins vegar ekki ákærð fyrir athæfið.